145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að ég mundi vilja fara allt aðra leið en hv. þingmaður þegar kemur að því að bæta hag öryrkja. Það kristallast auðvitað best þegar breytingartillögur meiri hluta hv. velferðarnefndar eru skoðaðar annars vegar og breytingartillögur frá minni hluta hv. velferðarnefndar hins vegar.

Það sem ég skil ekki og á svo erfitt með að átta mig á það er að ef hv. þingmanni er alvara með það að vilja taka upp starfsgetumat — sem ég dreg ekkert í efa, hv. þingmaður hefur talað þannig — erum við þá ekki að koma okkur í ansi erfiða stöðu með því að gera vægi sérstöku framfærsluuppbótarinnar miklu meira inn í heildargreiðslur öryrkja, stækka hópinn sem fær sérstaka framfærsluuppbót? Erum við þá ekki að gera okkur næstu skref, ef við gefum okkur nú að okkur takist að ná sátt um það, erfiðari ef það verður ofan á að fara þessa leið frekar að koma bara með almenna hækkun á alla bótaflokkana og halda þannig hlutföllunum innan kerfisins óbreyttum? Ætti það ekki að vera punkturinn sem við þurfum að ganga út frá við kerfisbreytingarnar?