145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp í örstutta ræðu vegna digurbarkalegra ummæla hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Hann fór nú hér með heldur þunnan boðskap varðandi hækkun greiðslna almannatrygginga. Við sem fylgjumst með þeim og þróun þeirra í samanburði við laun í landinu vitum að hann fór ekki með nema hálfsannleik. Það er þannig að á tímabili þessarar ríkisstjórnar hefur kaupmáttur hæstu greiðslna til þeirra sem búa einir í almannatryggingakerfinu aukist um 10% en kaupmáttur lágmarkslauna aukist um 21%. Aukningin er því eingöngu 50% af kaupmætti lágtekjufólks. Það eru staðreyndir sem við höfum reynt að vinna gegn með endurteknum tillögum um hækkun almannatrygginga sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa hafnað. Mér finnst svo óskammfeilið að koma hér og halda því fram að þessi ríkisstjórn hafi lyft grettistaki í lífeyri almannatrygginga, að ég fann mig knúna til að koma hér upp og leiðrétta þennan hálfsannleik.