145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[11:07]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega stoltur af því að mega taka þátt í að minnast 1. desember 1918. Þessi saga eymdar og sigra allar götur frá aldamótunum 1800, eftir Skaftárelda, er mér mjög hugleikin. Sumt af þeirri sögu er skráð hér á göngum hússins, t.d. eins og einn misheppnaður stjórnarskrárfundur 1851, þjóðfundurinn. Hann var talinn misheppnaður, en var þó ekki misheppnaðri en svo að á eftir fylgdi stjórnarskrá nokkrum árum síðar, 23 árum síðar. Þessi ferill frá 1851 og jafnvel fyrr, þegar við vorum sem aumust — það er vert að minnast þess að stóri áfangasigurinn var 1918, þá var fullveldi Íslands staðfest. Vissulega var konugssamband við Danmörku, en Ísland var frjálst og fullvalda ríki 1918. Vissulega var ekki ákveðið þá að nota 1. desember, fullveldisdaginn, sem þjóðhátíðardag. Ég tel að það hefði verið gert fyrr. Það er skráð hér niðri á göngum hússins, þjóðhátíðardagurinn 17. júní var ákveðinn 1911 við stofnun Háskóla Íslands á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar. En fullveldi og sjálfstæði er áþreifanlegt. Það er mælanlegt. Í athugun minni á sögu síðari hluta 20. aldar standa nokkrir hlutir upp úr þar sem þjóðin fann sig á meðal þjóða. Það er t.d. aðild að alþjóðasamtökum strax árið 1944 þegar Ísland gerðist aðili að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sömuleiðis síðar það ár þegar Ísland gerðist aðili að Alþjóðaflugmálastofnuninni þegar gefin höfðu verið út u.þ.b. 27 flugskírteini. Það var mikil framsýni.

Stundum finnst mér að stóru áfangar 6. áratugarins hafi ekki verið unnir hér á Alþingi heldur hafi það verið tveir einstaklingar sem unnu þá sigra sem gerði Ísland þjóð meðal þjóða. Það gerðist á svipuðum tíma, þ.e. þegar Halldóri Kiljan Laxness var úthlutað Nóbelsverðlaunum fyrir 61 ári og sömuleiðis um næstu áramót þar á eftir var mikil lofgrein í Morgunblaðinu um það að ungur maður hafði unnið 1. og 2. sæti á skákmóti í Hastings, og varð stórmeistari nokkrum árum síðar. Friðrik Ólafsson, stórmeistari, og Halldór Laxness vörðuðu ákveðna sögu í íslensku fullveldi, sjálfstæði. Við skulum minnast þessara áfanga. Ég er stoltur af því að mega taka þátt í afgreiðslu þessarar tillögu. Takk fyrir, virðulegi forseti.