146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga við mjög sérstakar aðstæður með óhefðbundnum hætti. Umræðan ber þess mikil merki að við erum í vanda stödd, hver einn og einasti þingmaður, í vanda sem ég held að sé mjög hollt að vera í annað slagið. Ég held að mikilvægt sé að menn séu meðvitaðir um að það eru allir um borð í bátnum og þá skiptir máli að þeir ausi jafnt úr honum svo ekki fari illa.

Við erum með nýtt þing án formlegs meiri hluta sem tekst á við fjárlagagerð og það er langt komið fram í desember, langt út fyrir hefðbundinn tímaramma umræðu um fjárreiður og fjárlög hverju sinni. Þetta væri alveg nóg, þær aðstæður, en við erum líka með ný lög um fjárreiður og fjárlög og hvernig við eigum að gera fjárlög. Þegar við stöndum frammi fyrir þessu öllu í einu er okkur talsverður vandi á höndum. Ég held því að mjög mikilvægt sé að við umfjöllun, vinnslu og umræðu um fjárlagagerðina núna verði haft í huga að hér er hvorki meiri hluti né minni hluti, hvort sem við tölum um þingmennina í þessum sal eða þingmenn í hv. fjárlaganefnd, í sjálfu sér eru allir í minni hluta.

Frumvarp það sem við ræðum núna byggir í öllum aðalatriðum á fjármálaáætlun sem samþykkt var síðastliðið sumar sem þingsályktun. Þá hafa líka komið til nokkrar lagabreytingar í kjölfarið á henni sem verður að taka tillit til á milli umræðna. Það verður því að myndast mjög breið samstaða um afgreiðslu fjárlaga ef takast á að afgreiða þau. Sú samstaða verður að byggjast hratt og vel upp. Hún er aldeilis ekki sjálfkrafa í hendi.

Þó vil ég ítreka að við höfum leitt í lög í góðri samstöðu í þinginu á undanförnum mánuðum þá umgjörð sem við ætlum að vinna eftir um gerð áætlana. Ég held að mikilvægt sé að við varðveitum sameininguna og viljann til þess að vinna að vandaðri áætlunargerð og látum það standa, að við rífum það ekki upp vegna tiltekinna aðstæðna hverju sinni. Það er ekki í boði. Þær áætlanir og sú löggjöf setja okkur aldeilis skorður og vinnuramma til að vinna eftir. Við erum líka nýkomin saman að loknum kosningum. Við erum öll nýbúin að ræða við kjósendur, við landsmenn, og hlusta á áherslu þeirra, vonir og væntingar. Við höfum lagt áherslu á forgangsröðun á undanförnum árum. Við höfum forgangsraðað fjármunum til heilbrigðismála fyrst og fremst. Við höfum líka hlustað á landsmenn á undanförnum mánuðum, hverjar vonir þeirra og væntingar eru. Ég leyfi mér að fullyrða að í öllum aðalatriðum er það líka forgangsröðun þeirra, enda eigum við að endurspegla og endurspeglum viljann hér inni.

Ég ítreka að það er réttur farvegur fyrir áherslubreytingar, það að breyta raunverulega og varanlega þeim áherslum sem birtast í fjárlögum hverju sinni og fjárlagafrumvarpi hverju sinni verður að hafa réttan aðdraganda. Því er það svo að ekki er hægt að sveigja skútuna hressilega til hliðar við fjárlagagerðina núna, þó ekki væri nema vegna þessa stutta tíma en líka vegna þeirra verkferla sem við höfum innleitt í löggjöfina. Þar er fyrst að nefna að við höfum leitt í lög fjármálareglur fyrir hið opinbera þar sem við fjöllum um þætti eins og hallarekstur og hvernig beri að takast á við hann, þar sem við fjöllum um skuldastöðu og skuldaviðmið og -markmið. Allt þetta setur okkur ákveðnar skorður.

Við eigum líka að styðjast við fjármálastefnu ríkisstjórnar. Við sitjum uppi með að það er ekki komin ný ríkisstjórn, við höfum kannski ekki mikið að horfa til þar, og við eigum líka að styðja við fjármálastefnu sem lögð er fram á vorþinginu. Það er hin eiginlega fjárlagagerð sem fer fram í nýjum lögum um fjárreiður ríkisins. Á vorþinginu eigum við að takast á um þá þætti sem við höfum svo oft tekist á um á haustþingi hingað til, um útgjöld, gjaldahlið fjárlaganna fyrst og fremst, en stefnan er raunverulega lögð á vorþinginu. Við erum ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að geta farið í gegnum þá umræðu vegna stöðunnar sem við erum í núna.

Í mínum huga verðum við að hafa alla þessa verkferla skýra og í huga þegar við tökumst á við þetta verkefni. Það þýðir hins vegar ekki að við getum ekki gert tillögur að breytingum til þess að ná samstöðu um að afgreiða fjárlög á tilsettum tíma, síður en svo, en það verður að vera innan allra þeirra ramma sem ég hef rakið.

Við höfum sjálfsagt öll miklar væntingar og hugmyndir um alls konar breytingar og áherslur, ekki einungis til aukinna útgjalda heldur líka til aukins aðhalds og aukins sparnaðar og til endurskoðunar á því hvernig við veitum þá fjármuni sem við höfum úr að spila hverju sinni. Við eigum að takast á við 34 málefnasvið sem skiptast í 100 málaflokka. Fyrir þeim er rækilega gerð grein í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Þar er sú vinna sem á að fara fram, hvernig við breytum þeim tillögum sem fjallað er um. Það er í þeim nýja anda sem okkur ber fyrst og fremst að fjalla um þá þætti sem þar fram koma og eru frávik frá samþykktri fjármálaáætlun. Við höfum nefnt alla þessa stóru pósta okkar, samgönguáætlun, aukin útgjöld til heilbrigðismála o.s.frv. Margar ágætar ræður hafa verið fluttar í dag í þeim anda sem ég get heils hugar tekið undir. En við verðum líka að gæta að ákveðnu jafnvægi í þeim efnum, gæta að því að við aukum ekki útgjöld til þess eins að auka útgjöld, af því að við teljum að það sé mikil þörf. Við þurfum að undirbúa það líka, gera áætlanir í þeim efnum. Fyrst ég nefni heilbrigðismál sérstaklega þá var lögð fram góð og skýr skýrsla og greining á því að við höfum ágætlega fjármagnað heilbrigðiskerfi, erum í ágætri stöðu í þeim efnum. Við viljum að sjálfsögðu öll gera betur, ekki ætla ég að andmæla því. En með réttum vinnubrögðum þurfum við að ákveða hvernig við ætlum að innleiða aukna notkun fjármuna. Sú vinna er aldeilis ekki í hendi. Það er ekki á einfaldan hátt hægt að veifa auknum fjárhæðum.

Ég ætla líka að leyfa mér að segja úr þessum ræðustól á þessari stundu að þó svo að ég skilji stjórnendur Landspítalans, þeirrar ágætu og mikilvægu heilbrigðisstofnunar, ætla ég heldur ekki að sleppa því að segja að ég gæti líka alveg haldið ræður um Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eða Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem gætu verið hlutfallslega miklu meira í þörf fyrir aukna fjármuni. Þetta verðum við alltaf að setja í samhengi. Við getum ekki afgreitt umræðuna sem svo að það sé nákvæmlega 11 milljarða þörf á Landspítalanum og gleymt síðan að ræða um aðrar heilbrigðisstofnanir. Ég er ekki að draga Landspítalann fram sérstaklega til að kvarta undan honum með nokkrum hætti í almennri umræðu, heldur einungis til að taka utan um það að við þurfum að geta rætt með heildstæðum hætti um þessi mikilvægu verk okkar hér.

Þetta fjárlagafrumvarp er bein afleiðing af fjármálastefnunni sem samþykkt var í vor og í raun útlegging á henni. Frumvarpið er á margan hátt gallað. Við vitum það og eigum vafalaust eftir að komast rækilega að því í vinnu fjárlaganefndar næstu daga. En við getum ekki mótmælt því að horft er til þess að leggja verulega aukna fjármuni í ýmsa málaflokka sem við getum talið upp, almannatryggingar, auknir fjármunir til heilbrigðismála og í svo marga aðra þætti.

Við viljum sannarlega alltaf gera betur en verðum líka, eins og hv. fjármálaráðherra nefndi ágætlega í framsögu sinni, að kunna okkur magamál í útgjöldum.

Þetta er í mínum huga það verkefni sem fjárlaganefndin stendur frammi fyrir á næstu dögum og þingið allt í heild sinni. Það ríður því á að hér myndist góður hugur til samhents átaks um að ganga fram af mikilli ábyrgð. Ég trúi að nefndarmenn í hv. fjárlaganefnd muni gera það. Ég hef boðað nefndarmönnum að við munum þurfa að vinna mikið og hratt og vel í undirbúningi fyrir 2. umr. fjárlaga og þær breytingar sem við munum vafalaust verða sammála um að gera og leita þar af leiðandi sátta svo okkur takist að afgreiða fjárlög fyrir áramót.

Óþreyjan eftir auknum útgjöldum, óþreyjan eftir að stóraukið sé til vegamála, eftir stórauknum framlögum til menntamála, svo dæmi séu tekin, verður líka að skoðast í ljósi þess að við höfum á undanförnum árum, sérstaklega á síðasta ári, lagt tugi milljóna í auknar launagreiðslur vegna kjarasamninga. Í sjálfu sér er það mjög jákvætt mál en við getum því miður, meðan við erum að komast í gegnum þann skafl, ekki aukið verulega á öðrum sviðum. Á síðustu fjárlögum settum við 30 nýja milljarða vegna hækkaðra launagreiðslna. Það rífur í að komast í gegnum slík verkefni. Enn höldum við áfram á þeirri braut að þessu sinni. Við erum að fullnusta hér gerð kjarasamninga. Við höfum líka það stóra hlutverk að varðveita stöðugleikann í landinu þannig að þessar miklu launahækkanir verði eftir hjá fólkinu, þannig að við stefnum ekki enn og aftur fram í óstöðugleika sem tekur kjarabæturnar aftur af fólki.