146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:44]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég ætla í stuttu máli að fara yfir nýframlagt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017, en frumvarpið er lagt fram undir dálítið skrýtnum kringumstæðum. Hér er starfsstjórn sem leggur fram fjárlagafrumvarp sitt samtvinnað við nýtt verklag sem tekur mið af fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Það er mjög gott verklag en engu að síður eru aðstæður nokkuð furðulegar. Þessar aðstæður gera það að verkum að snúnara verður að taka á þeirri pólitík sem venjulega endurspeglast í fjárlögum hverrar ríkisstjórnar, af því ekki er hægt að segja hver er í meiri hluta og hver er í minni hluta. Það gerir verkefni okkar krefjandi en jafnframt skýrara því að við þurfum að finna leiðir, þingheimur allur, til að forgangsraða, til að tala saman um þau málefni sem mestu skipta og einhenda okkur í að bæta í á þeim stöðum þar sem þörfin er mest.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrr í dag að við þyrftum að kunna okkur magamál varðandi útgjöld. Já, það þurfum við svo sannarlega, en við verðum að setja okkur viðmið fyrst. Við sem höfum það gott erum löngu mettuð en ekki hinir sem ekki njóta sömu gæða og við. Það þurfum við að hafa hugfast þegar við afgreiðum þessi fjárlög.

Virðulegi forseti. Stóru málin sem brýnast er að ræða erum við held ég mikið til sammála um. Ég legg til að við einbeitum okkur að þeim. Allir flokkar töluðu um það fyrir kosningar að efla heilbrigðisþjónustuna, styrkja menntakerfið, byggja upp innviði. Töluðu ekki allir líka um að bæta lífskjör þeirra sem ná ekki endum saman, eru sjúkir eða geta ekki tekið þátt í samfélaginu að fullu við þær aðstæður sem við sem stjórnvöld bjóðum þeim upp á?

Ég ætla að fara yfir stóru línurnar, stóru málin í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir. Hvað varðar heilbrigðismálin er ljóst að auka á um 4 milljarða til Landspítalans. Af þeim fara 3 milljarðar nær eingöngu í launahækkanir vegna lögbundinna kjarasamninga. Þá er eftir 1 milljarður. Hvað á spítalinn að gera við 1 milljarð þegar starfsfólkið og stjórnendur spítalans segja að það vanti 12? Þetta eru miklar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og ef við sem stjórnmálamenn ætlum ekki að bæta úr þessu verðum við að segja stjórnendum spítalans hvaða starfsemi eigi að skera niður. Okkar er ábyrgðin í því. Er fólk tilbúið til þess að skera niður þjónustu á Landspítalanum? Ég er ekki tilbúin til þess. Ég tel að þarna séu engin gæluverkefni, en ef einhver getur fær rök fyrir því skal ég hlusta á þau. Ég legg trúnað á það og treysti því sem stjórnendur spítalans segja um að bæta þurfi í. Við þurfum að finna út úr þessu.

Þá er það uppbygging innviða. Samgönguáætlun er skorin niður í þessu frumvarpi, samgönguáætlun sem er þó nýsamþykkt og var lögð fram af þeim flokkum sem hér leggja fram fjárlagafrumvarp. Það vantar um 15 milljarða eins og staðan er í dag. Vafalaust þarf að forgangsraða eitthvað. Það er mín skoðun að við verðum að hafa viðhald og öryggi vegfarenda að leiðarljósi í þeim efnum.

Menntamálin, þar er aðeins aukið í. Ég á eftir að sjá hvort það sé nægjanlegt. Ég held ekki. Háskólarnir fá meira svigrúm, sem þeir hafa þurft lengi, en mér finnst í þessu samhengi við ekkert ræða fyrsta skólastigið, leikskólann, og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga hvað það varðar. Við þurfum að huga að því. Þarna er velferð barna undir, að allir geti sótt þetta fyrsta skólastig. Það hefur að gera með fjárráð foreldra og við í Bjartri framtíð höfum talað fyrir því að fyrsta skólastigið verði gjaldfrjálst eða greitt af skattgreiðendum í gegnum sveitarfélögin. Ég tel raunar að barnabótum sé betur varið á þann hátt, ef þarf að forgangsraða þannig.

Þá er það bæting lífskjara. Öryrkjar sátu eftir við afgreiðslu almannatryggingakerfisins. Þeir fá einhverja hækkun núna, ef ég hef lesið rétt, en ekki sem nemur neinu í raun. Við verðum að horfa til þess að við afgreiddum ekki fyrir áramót þau atriði sem Öryrkjabandalagið lagði áherslu á. Þau drógu sig raunar úr almannatryggingaumræðunni fyrir áramót. Við þurfum að finna út úr því hvernig við getum opnað það samtal á ný.

Hér hefur verið rætt að þensla sé áhyggjuefni. Ég tek undir það. Við eigum að sleppa gæluverkefnum. Ég verð þó að viðurkenna að ég sé þau ekki á svo mörgum stöðum. En er það kannski gæluverkefni að setja 100 milljarða í Stjórnarráðið, eins og nú er áætlað? Eigum við að sleppa því? Það vantar enn þá 35 milljónir, sem eru ekki neitt í stóra samhenginu, til þess að NPA-samningar, eða það sem heitir notendastýrð persónuleg aðstoð við fatlað fólk, fái að halda áfram eftir áramót. Viljum við ekki frekar að svoleiðis hlutir nái fram að ganga svo að fatlað fólk sem er með slíka samninga þurfi ekki að flytja á stofnanir og geti áfram búið heima hjá sér? Það skiptir mig meira máli.

Það þarf vissulega að auka innkomuna. Við í Bjartri framtíð höfum ekki tala fyrir því að hækka skatta. Við þurfum samt að horfa á það hvernig misskipting auðs og tekna er á Íslandi. Það er mín persónulega skoðun að launafólk í því sambandi sé ekki stóra vandamálið. Þeir sem eru með há laun greiða hátt í 50% skatt af tekjum sínum. Það eru arðgreiðslur í fyrirtækjum sem ganga vel. Þær eru skattlagðar mjög lágt á alþjóðlegan mælikvarða. Ef við ætlum að skoða misskiptingu auðs á Íslandi held ég við ættum að horfa í þá átt að jafna hlutina. Við sjáum að það gengur vel, sem betur fer, í ýmsum fyrirtækjum, t.d. í stórum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þau hafa legið undir ámæli fyrir að borga ekki réttlátan arð af tekjum sínum í sameiginlega sjóði. Þegar maður sér að það eru 10–12 milljarðar sem fara í arðgreiðslur en 5,5 milljarðar sem eiga að skila sér í veiðigjöld og það þykir réttlátt þá held ég eitthvað sé að. Þá þurfum við að skoða það í grunninn.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er ekkert rætt um að auka innkomuna. Ég get ekki séð að leiðir til gjaldtöku í ferðaþjónustu séu skoðaðar. Nú erum við komin á þann stað að við þurfum að fara að tempra flæðið inn í landið. Við stöndum í heilmiklum útgjöldum því tengdu. Isavia þarf að stækka flugstöðina jafnt og þétt. Það kostar skattgreiðendur mikið. Á móti kemur að gjaldeyrisinnflæðið er mjög mikið vegna ferðamannanna. Ferðaiðnaðurinn hefur gjörsamlega bjargað Íslandi á erfiðum tímum. En er ekki í lagi að hafa skattþrepin þarna einfaldari og meira í takt við það sem gerist í öðrum greinum hér á landi?

Við sjáum í fjárlagafrumvarpinu, sem er dálítið skondið, og ég lagði saman tvo og tvo og fékk út tíu, að hin heilaga þrenning, bensín, áfengi og tóbak, hækkar um 2,5% umfram verðbólgu. Þetta er sá liður sem alltaf er hækkaður en skilar ekkert miklum tekjum þannig lagað séð. Ég spyr mig að því hvort verið sé að fara einhverja fjallabaksleið við að skattleggja ferðamenn með því t.d. að hækka áfengisgjaldið, af því að neysla ferðamanna á áfengi er mikil í landinu, ég veit reyndar ekki hvort áfengisneyslan ferðamanna er meiri en hins venjulega Íslendings, væntanlega ekki. Er alltaf auðveldasta leiðin að hækka þetta? Auðvitað eru þetta líka álögur þótt okkur finnist þetta vera álögur sem auðvelt er að réttlæta að hækka. Af hverju var horfið frá sykurskattinum ef fólk er að horfa í lýðheilsu og forvarnir? Þar var sannarlega skattur sem hefði alveg mátt (Gripið fram í: Hækka.) halda áfram með. Ef um er að ræða lýðheilsumarkmið, eins og í tilfelli áfengis og tóbaks, ætti það sama að eiga við um sykurskattinn.

Við sjáum úti í heimi að eldsneytisverð fer hækkandi og á það leggjast meiri álögur hjá okkur. Það verður forvitnilegt að sjá í hvaða tölum bensínlítrinn hérna endar eftir tvö, þrjú ár.

Virðulegi forseti. Tími minn er hlaupinn frá mér. Ég vil að lokum leggja áherslu á að þær 35 milljónir sem vantar í notendastýrða persónulega aðstoð, sem vantar vegna þess að kjarasamningar hækkuðu, verði settar inn í þetta fjárlagafrumvarp. Ég er nú þegar búin að tilgreina lið sem við getum hent út í staðinn, sem er liðurinn um Stjórnarráðið, að fara í uppbyggingu þar. Ég veit ekki hversu brýnt það þykir í samanburði við þetta.

Svo hlakka ég til þess að sjá hvernig hv. fjárlaganefnd vinnur úr þessum málum, hvaða upplýsingar hún fær frá stofnunum samfélagsins, hvar þörfin er brýnust og hvernig við getum unnið saman að góðu fjárlagafrumvarpi við þessar skrýtnu aðstæður. Ég tel að við höfum einstakt tækifæri til að vinna það á jafningjagrundvelli og sýna íslensku þjóðinni að við séum svo sannarlega traustsins verð. Við kunnum góðar leiðir til þess að vinna að góðum málum.