146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að taka þessa umræðu og hafa um leið hliðsjón af öðrum breytingum sem stefnir í að verði um áramótin samkvæmt lögum. Það sem við erum að gera er að létta tæpum 4 milljörðum í tekjuskattskerfinu með því að lækka neðsta þrepið, fella brott miðþrepið. Þá skiljum við eftir um 4 milljarða hjá launþegum þessa lands í gegnum tekjuskattskerfið. Við erum sömuleiðis að fella niður um 3 milljarða af tollum. Á sama tíma hækka þessi krónutölugjöld og skattar aðeins. Þetta finnst mér fín breyting, að skilja meira eftir af sjálfsaflafé hjá fólki og halda verðgildi skatta af þessum toga. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það eru viss þenslumerki og að vissu leyti er hægt að halda því fram, eins og hér er gert, að með hækkun skattanna sé aðeins vegið upp á móti þensluhvetjandi áhrifum annarra breytinga.