146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og ánægjulegt að eiga við hann orðaskipti um þessi grundvallaratriði. Ég held að kannski séu óvenjumiklar væntingar til þessa nýkjörna þings, einmitt vegna þess hversu óvenjulegt það er, vegna þess hversu óvenjuleg samsetningin er og vegna þess að við erum í þeirri stöðu sem við höfum ekki verið áratugum saman, að vera með það verkefni að þingið þurfi að ljúka málum án þess að nákvæmlega liggi fyrir hvernig meiri hluti og minni hluti hafa skipast. Ég finn a.m.k. til mikillar ábyrgðar gagnvart samfélaginu hvað það varðar að vera með skýra sýn.

Við sem erum í stjórnmálunum hneigjumst til þess oftar en ekki að nefna hugtök eins og heildstæða nálgun, skýrara regluverk, aukna skilvirkni og meiri framleiðni. Þá óttast ég að við séum hætt að hugsa um samfélag fyrir fólk, að þá séum við einmitt farin að hugsa um samfélag fyrir hagstærðirnar sem auðvitað fela í sér fólk. Samt sem áður er það þannig eins og fram kom svo eftirminnilega, og við megum aldrei gleyma því, í aðdraganda hrunsins að margar efnahagslegar kennitölur voru góðar. Við sáum vöxt sem var til marks um uppbyggingu, hagvöxt, á meðan undir mallaði illkynja breyting á samfélagi sem hefði getað orðið heilbrigt en lenti í því að hrynja.

Ég er ekki að biðja hv. þingmann um svar við þessum vangaveltum mínum heldur kannski miklu frekar að taka þátt í þeim með mér, um að við sem hér erum á þessu nýskipaða og nýkjörna þingi sammælumst um að gleyma því aldrei að við erum að þessu fyrir samfélagið og fyrir fólkið.