146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:58]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka aftur fyrir þetta, þetta eru góðar vangaveltur. Þetta er óvenjuleg staða sem við erum í. Við erum að koma þeim inn í einhvers konar reiðileysi. Það vantar ákveðna stoð sem fyrri þing hafa gengið út frá en ég sé í því tækifæri. Í allri óreiðu eru tækifæri og tækifærin leynast oft á mörkum óreiðunnar, tækifæri til að ná sjónarmiðum saman sem yfirleitt ganga ekkert endilega saman, sem fólk heldur jafnvel í sundur vísvitandi eða óafvitandi. Við þurfum að muna að á bak við hvert excel-skjal er fólk. Það er fólk á bak við allar hagstærðir. Við horfum á tölur eins og Gini-stuðulinn sem sýnir Ísland í rosalegu góðu ástandi í samhengi við önnur lönd heimsins. En ýmislegt bendir til þess að sú mæling gæti verið röng, að eitthvað vanti inn í þá hagstærð, að það vanti einhvern veginn að endurskoða aðferðafræðina.

Það sem ég legg til er að við förum mjög markvisst í að skoða hvernig allar stofnanir samfélagsins virka, reyna að finna leiðir til þess að gera þær betri þannig að þær þjóni fólkinu betur.