146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[16:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef náttúrlega kallað eftir því að það sé nákvæmlega það sem þingið geri, en það er ekki það sem ég er að nefna, ég nefni það ekki varðandi þetta frumvarp heldur hvernig það rammi betur inn ákvarðanir kjararáðs. Hæstv. ráðherra segir að kjararáð geti tekið tillit til launaþróunar á vinnumarkaði. Það kom líka fram í hinu frumvarpinu, frumvarpinu sem kjararáð tók ákvörðun út frá núna og þar er miklu sterkara orðalag. Það var fært úr lögum um Kjaradóm inn í greinargerðina með frumvarpinu sem samþykkt var 2006 og sagt, með leyfi forseta, að þetta væri hugsað til þess „að ekki sé hætta á að úrskurður kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu“.

Þetta er miklu sterkara. Í þessu frumvarpi er sagt um kjararáð, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun starfskjara þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir skal ráðið gæta þess að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu.“

Í samræmi við laun í þjóðfélaginu. Svo er nefnt að ráðið geti það og það er líka það sem hæstv. ráðherra sagði. Þeir geta gert það. Þeir þurfa ekki að gera það. Þeir eru ekkert bundnir af þessu eins og þeir áttu að vera bundnir af því í hinu frumvarpinu. Nú er verið að taka það og þynna það út og þeir eru ekkert bundnir af því að taka tillit til þess að þeir megi ekki skapa hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks. Þetta er miklu veikara í þessu frumvarpi. Þar eru þeir ekkert bundnir. Gætum við ekki bundið þá til þess að þeir megi ekki fara fram úr almennri launaþróun? Gætum við ekki gert svoleiðis breytingartillögu og sett hana inn þannig að þeir séu bundnir? Ákvörðun kjararáðs á kosningadegi hækkaði laun þingmanna samkvæmt Samtökum atvinnulífsins — á heimasíðu ráðuneytisins er hækkunin alla vega umfram 10%, þetta eru ekki alveg nýjustu tölurnar hjá ráðuneytinu, þeir hafa framreiknað þetta eitthvað hjá SA og telja að hækkunin sé (Forseti hringir.) 21% umfram almenna launaþróun. Þá erum við að fara aftur til 2006, (Forseti hringir.) þá er lækkunin 2008 inni í því. Þannig að þeir eru ekkert bundnir.