146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[16:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Ég tek undir að nauðsynlegt er að endurskoða lög um kjararáð með gagnsæi og frekari skýrleika að leiðarljósi. Ég tel þetta frumvarp hins vegar alls ekki ganga nógu langt, sérstaklega í ljósi úrskurðar kjararáðs sem féll á kjördag um laun alþingismanna, ráðherra og forseta Íslands. Ég hef skoðað þennan úrskurð náið þar sem hann kom mér töluvert á óvart. Ég var ekki meðal þeirra sem kjararáð hafði samráð við við ákvarðanatöku sína. Ég ákvað því að skoða þær reglur sem kjararáð þarf að fara eftir við ákvarðanatöku sína og hjó eftir ýmsum atriðum sem mér fannst vanta upp á í úrskurði þess en líka eftir ýmsum atriðum sem mér fannst vanta upp á í lögum um kjararáð sem skylda ráðið til að veita almenningi skýr svör og upplýsingar um hvernig það kemst að niðurstöðu sinni.

Það sem ég held að hafi valdið hvað mestu fjaðrafoki við ákvörðun kjararáðs var hreinlega að almenningur, og ég sem stend í þessum ræðustól þar á meðal, skilur ekki hvernig kjararáð komst að þessari niðurstöðu. Rökin sem fram koma í úrskurði kjararáðs eru ekki fullnægjandi, honum fylgja ekki nægilega mikil gögn til að hægt sé að glöggva sig almennilega á því á hverju úrskurðurinn byggir og felur ekki í sér nægar upplýsingar til að hægt sé að taka upplýsta afstöðu til þess hvort kjararáð hafi í einu og öllu farið að lögum við ákvarðanatöku sína.

Hvað þetta frumvarp sem fyrir okkur liggur varðar vil ég fyrst benda á að mér finnst enn þá vanta ákvæði í lög um að kjararáð sé faglega skipað. Því er ekki fyrir að fara í þessu frumvarpi að einhvers konar menntunar- eða hæfniskröfur séu gerðar um skipun í kjararáð. Verður að teljast æskilegt að þeir sem sæti taka í kjararáði hafi einhvers konar menntun og/eða reynslu sem nýtist þeim í starfi og hafi góða innsýn og skilning á þróun launamála á hinum almenna vinnumarkaði, svo dæmi sé tekið.

Annað sem ég rek augun í er hin aukna krafa um gagnsæi, sem ég hef heyrt marga hv. þingmenn kalla eftir, hvað varðar vinnubrögð kjararáðs. Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á áðan að vissulega fæli þetta frumvarp í sér ákveðna aukna kröfu um gagnsæi. Í 5. gr. frumvarpsins um málsmeðferð stendur, með leyfi forseta:

„Við endurmat launasetningar einstakra hópa skal kjararáð skilgreina samanburðarhópa og birta í úrskurði sínum tölulegar upplýsingar um laun og launaþróun þeirra.“

Þetta er hins vegar eina ákvæðið sem ég hef tekið eftir að kalli á aukið gagnsæi í ákvörðunartöku kjararáðs og verð ég að segja að mér finnst þetta alls ekki fullnægjandi til að almenningur geti verið almennilega upplýstur um hvernig kjararáð tekur ákvarðanir sínar. Úrskurður kjararáðs skildi nefnilega eftir sig fleiri spurningar en svör, alla vega í mínum huga og í huga þingflokks Pírata. Við sendum því formlega fyrirspurn sem aðilar máls til kjararáðs þann 22. nóvember og bíðum reyndar enn svara. Frumvarpið sem fyrir okkur liggur svarar í raun ekki mörgum þessara spurninga heldur og gerir ekki ráð fyrir að kjararáð muni þurfa að svara þeim í framtíðinni þegar það tekur ákvarðanir sínar.

Meðal þeirra gagna sem við kölluðum eftir hjá kjararáði voru skjöl þau og gögn sem kjararáð notaðist við til þess að meta það sem kjararáð kallar sérstakar greiðslur til alþingismanna fyrir vinnu utan hefðbundins dagvinnutíma. Við óskuðum eftir áliti kjararáðs á hlutfalli þessara sérstöku greiðslna af heildarhækkun alþingismanna, samanber 2. mgr. á bls. 6 í úrskurði kjararáðs um laun og kjör alþingismanna.

Ég fæ ekki séð í þessu frumvarpi að einhvers konar krafa sé gerð um að kjararáð upplýsi almenning, og þar með þá sem ákvörðun þeirra varðar, um það hvernig þeir meta hvað skuli teljast aukagreiðslur og hvað ekki og hversu hátt hlutfall launahækkunar okkar síðasta á kjördag var í raun og veru fyrir þær aukagreiðslur sem kjararáð víkur að í úrskurði sínum.

Eins finnst mér tilefni til, í nafni gagnsæis, að kjararáði sé gert skylt að birta fundargerðir sínar, dagskrá funda, fundargögn og fundarboð sem 10. gr. starfsreglna kjararáðs gerir ráð fyrir og gerir í raun kröfu um að það haldi. Ég sé enga sérstaka skýra ástæðu til annars en að fundargerðir kjararáðs séu aðgengilegar almenningi til að skýra betur hvernig það komast að þeirri niðurstöðu sem það komst að, því að ég fæ ekki almennilega séð hvernig kjararáð komst að niðurstöðu sinni hvað varðar launahækkun þingmanna.

Loks sé ég heldur ekki tilefni til annars en að kjararáð birti bréf og önnur gögn sem því berast vegna athugunar ráðsins á kjörum þingmanna, ráðherra og forseta Íslands og birti þau gögn öll á aðgengilegan hátt á heimasíðu sinni. Ég fæ nefnilega ekki séð að það sé einhver ástæða til að halda leyndum þeim bréfum sem komið hafa frá fjármálaráðuneyti t.d., forsætisráðuneytinu og forseta Alþingis hvað það varðar.

Loks langar mig að víkja í máli mínu að stjórnsýslulögum, lögum um starfsreglur kjararáðs og lögum um kjararáð, sem virtust ekki nægilega uppfyllt í ákvörðun kjararáðs síðastliðinn kjördag, um það að kjararáði beri að hafa samráð við þá aðila máls sem ákvörðun þess tekur til. Nú sit ég hér, nýskipaður þingmaður, og ég vissi ekki af ákvörðun kjararáðs og kjararáð hafði ekki neitt samráð við mig um þessi launakjör. Því spyr ég mig hvort ekki þurfi að tryggja með einhverjum betri hætti að kjararáð taki ákvarðanir á þeim tíma og í því rými að það geti tryggt að samráð sé haft við alla aðila máls, en ekki tæpan helming þeirra eins og staðan er í dag. Ég vil því beina því til nefndarinnar að skoða hvort ekki megi auka gagnsæi á þann hátt sem ég hef bent á, að kjararáð birti eins mörg gögn og það mögulega getur og að kjararáð hafi betur í huga samráð við aðila máls. Ég fæ ekki séð í þessum lögum að kjararáði sé einhvers staðar gert skylt að taka ákvörðun á kjördegi, sem er að sjálfsögðu dagurinn þegar þingmenn endurnýja umboð sitt. Maður reiknar með því að það verði a.m.k. nokkrir nýir þingmenn sem þá hefur ekki verið haft samráð við. Ég kaupi það ekki, frú forseti, að hefð trompi stjórnsýslulög, starfsreglur kjararáðs sem og lög um kjararáð og hygg því að huga þurfi betur að þessum málum og tryggja að kjararáð starfi með gagnsæi, skýrleika og fagleg vinnubrögð að leiðarljósi. Það vantar ýmislegt upp á í þessu frumvarpi til að svo megi vera.