146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að játa það að ég hef ekki getað lesið frumvarpið, var að koma í hús af fjárlaganefndarfundi. Eins og við þekkjum er mikið um að vera hérna og lítill tími sem gefst til að fara almennilega ofan í þetta allt. En ég tek undir það með hæstv. ráðherra að auðvitað skiptir máli að þessar stofnanir fái niðurfellingu af því tagi sem hér er lagt til, hvort sem það er Landspítalinn, skólarnir eða aðrar þær stofnanir sem fyrirséð er að geta ekki unnið á þessum halla og sérstaklega, eins og hér var nefnt, í ljósi nýrra laga og í ljósi þess að við höfum verið að leggja af markaða tekjustofna o.s.frv. Það getur auðvitað skipt máli í því samhengi að fá niðurfellda stofna. En hvort það dugar til í ljósi fjárveitinga sem nú eru í fjárlagafrumvarpinu, t.d. varðandi framhaldsskólana eða hvað það nú er, þeir stofnar eru fluttir yfir, sumir með þó nokkrum halla samt sem áður, veit ég ekki og hef kannski ákveðnar efasemdir um það.

Ég kom eiginlega hingað til að spyrja ráðherrann — um það leyti og ég labbaði upp í pontu var ég að fletta upp á Vegagerðinni sem við höfum fjallað oft um og hið neikvæða eigið bundna fé — hvort ég skil það rétt að hér sé verið að skera það í burtu, af því að ég náði því ekki sem ráðherrann sagði um Vegagerðina, ég játa það bara. Er það rétt að þær 234 milljónir séu í rauninni það eina sem stendur út af hjá Vegagerðinni, er búið að fella niður þennan stofn sem við höfum kallað neikvætt bundið eigið fé?