146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég ekki með í kollinum nákvæmlega hvernig staðan verður hjá Vegagerðinni með þessum lokafjárlögum fyrir 2015. En í grunninn er verið að taka á rekstrarhalla. Vegagerðin hefur lotið dálítið sérstökum lögmálum í þessu vegna þess að ávallt er haldið utan um þetta bundna eigið fé og stundum neikvæða eigið fé. En fyrst og fremst er þar auðvitað um eins konar innra bókhald ríkisins að ræða sem segir sögu sem menn mega ekki leggja of mikinn trúnað á bara út frá tölunum einum og sér. Varðandi eiginfjárstöðu Vegagerðarinnar getur þar verið að safnast upp áralöng, jafnvel áratugalöng saga sem skiptir í sjálfu sér engu máli í stóra samhengi hlutanna varðandi það hvað menn ætlast til inn í framtíðina. Neikvæð slík eiginfjárstaða segir í sjálfu sér ekki þá sögu sem mætti kannski ætla við fyrstu sýn að uppi séu hugmyndir um að stofnuninni sé gert að skila með einhverjum hætti til baka og halda stórkostlega í við sig í framkvæmdum. Það er enginn að velta slíku fyrir sér heldur er bara verið að halda einhvers konar innra reikningsbókhald.