146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[13:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ókei, við virðumst öll vera sammála um að megintilgangurinn í greinargerðinni eigi vonandi að verða það, eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir segir, að ekki sé farið umfram þennan ramma, þ.e. almenna þróun á vinnumarkaði. Þá vil ég spyrja hv. þingmann aftur. Nú erum við búin að tala við heildarsamtök og fá niðurstöðu um að þetta rammar ekki nógu vel inn. Erum við þá ekki sammála um að halda bara áfram að vinna að breytingartillögu við frumvarpið til að tryggja að það sé nógu vel rammað inn þannig að við lendum ekki aftur í þessu? Annars stöndum við frammi fyrir því að við gætum lent aftur í þessu vandamáli. Fyrst tilgangurinn virðist vera þessi, alla vega sagður sem tilgangurinn, eigum við þá ekki að tryggja það og fá það alveg ljóst frá heildarsamtökum að svo sé?

Tillaga okkar Pírata er þannig af því að hv. þingmaður talaði um að taka skuli tillit, ég nefndi í fyrri ræðu tillit. Ef menn eru ekki með stuðning í greinargerð um hvað það þýðir eins og er í núgildandi lögum þá er það ekki nógu sterkt. Okkar tillaga er: „Kjararáð skal í úrskurðum sínum ekki hækka starfskjör þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir umfram almenna þróun kjara á vinnumarkaði.“ Þannig (Forseti hringir.) var þetta endurorðað, rammað inn, og spyrja þarf heildarsamtök á vinnumarkaði hvort þetta sé nógu sterkt til að þeir komist ekki fram hjá þessu (Forseti hringir.) af því að þeir komust fram hjá hinu.