146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[15:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lögbrot er ekki betra orð yfir þetta. Hér er nefnd sem er falið ákveðið verkefni lögum samkvæmt og um það gilda ákveðnar meðferðarreglur og efnisreglur sem á að fara eftir.

Varðandi þessi laun, ég er ekki að gera kröfu um afturvirkni en auðvitað væri réttast að hafa þau afturvirk ef menn ætla að fylgja þróuninni sem varð. Þeir þingmenn sem sátu hér síðasta kjörtímabil og eru ekki lengur sitja náttúrlega eftir og heldur betur eftir. Það er hvorki sanngjarnt né eðlilegt, en ég ætla ekki að gera neina kröfu um það. Ég er að segja: Til lengri tíma litið miðað við þau lög sem um þetta gilda er þetta eðlilegur úrskurður. Við getum deilt um efnislega niðurstöðu, alveg eins og við deilum um niðurstöðu dóma, en lögbrotsumræða í þessu er algjörlega fráleit og allar hugmyndir um að ekki megi kveða upp úr svona úrskurð eða taka svona ákvörðun af því að það geti orðið eitthvert uppnám. Uppnám er bara huglægt og við getum ekki miðað við það. Ég veit ekki betur en að alla tíð þegar hafa verið kveðnir upp úrskurðir, hvort sem það var gamli Kjaradómur, kjaranefndin, kjararáð, þá var alltaf uppnám, þess alltaf krafist að það yrði tekið til baka, alltaf verið gert. Ef við hefðum alltaf farið eftir því værum við enn þá í gömlum krónum og ekki haggast.

Við skulum hafa það í huga að það er rétt og eðlilegt að þingmenn, dómarar og aðrir fylgi launaþróun og fylgi þeim reglum. Ef við erum ósátt við efnisreglurnar, við hvað á að miða ef við eigum ekki að miða við almenna launaþróun, og ef við eigum að búa til nýjan samanburðarhóp skulu menn bara gera það, en það er ekkert athugavert við þessa niðurstöðu, hún á að mínu viti við reglurnar (Forseti hringir.) og rétt er að fara varlega í orðræðu hvað þetta varðar.