146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[18:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta er í annað skipti sem ég hlusta á hann tala um þetta mikilvæga mál sem við höfum rætt núna á þingi og margir tjáð sig um. Og fyrir liggja allmörg nefndarálit.

Hv. þingmaður talaði um að hann skildi í rauninni ekki út á hvað málið gengi og í hvaða farveg það væri komið, ef ég skildi hann rétt. Hann tilgreindi allmörg atriði sem honum fannst óskiljanleg, þó er það svo að ég get ekki betur lesið en að ekkert af þeim atriðum séu tiltekin í 1. minnihlutaáliti frá efnahags- og viðskiptanefnd þar sem fulltrúi Vinstri grænna skrifar undir. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Telur hann mikilvægt að samræma lífeyriskjör á opinberum og almennum vinnumarkaði? Ef svo er, hvaða breytingar telur hann að þurfi að gera á frumvarpinu til að hann gæti samþykkt það?