146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:07]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í áratugi hefur ríkið, opinberi vinnumarkaðurinn, staðið að lífeyrissjóðakerfi sem er ekki sjálfbært. Það safnast upp halli á hverju einasta ári. Allir virðast vera sammála um að höggva þurfi á þennan hnút og hér gefst einstakt tækifæri til að gera það með peningum af stöðugleikaframlaginu. Allir eru ánægðir með það, allir hafa talað fyrir mikilvæginu, en svo er fólk aðeins farið að heltast úr lestinni þegar kemur að því að laga þetta alveg til framtíðar. Það er mjög miður, virðulegi forseti, og ekki á neinn hátt ábyrg afstaða. Það er verið að gera kerfisbreytingar samhliða peningainnspýtingunni svo snjóboltinn haldi ekki áfram að rúlla og hlaða á sig aftur.

Ef þetta er ekki gert stöndum við uppi á nákvæmlega sama stað eftir nokkur ár. Er það það sem fólk vill? Vilja hv. þingmenn bjóða ungu fólki upp á það sem skattgreiðendum framtíðarinnar? Þetta lendir á því.

Svo er ekki síður mikilvægt að jafna kjör milli opinbera markaðarins og hins almenna. Það þurfum við að gera í framhaldinu, (Forseti hringir.) það verður auðveldara verkefni nú þegar við lögum þetta lífeyrisréttindakerfi allt saman.