146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

innflutningur á landbúnaðarafurðum og loftslagsmál.

[15:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta hérna aðeins: Við hv. þingmaður höfum kannski mismunandi sýn á það hvað ríkið gerir en ríkið er auðvitað ekki að fara að auka innflutning á landbúnaðarvörum. Það eru aðrir sem geta gert það, ef tollar eru afnumdir eða lækkaðir, sem er auðvitað bara partur af viðskiptafrelsi og frelsi einstaklinga til að velja þær vörur sem fólk vill. Það er alveg rétt að það er forræðishyggja í þessum málum, við ætlum að láta af henni, vonandi. Íslendingar velja líka íslenskar landbúnaðarvörur, t.d. þær lífrænu. Þær eru mjög góðar. (GBS: En mengunin?) Og ég var búin að svara þessu með mengunina.

Mig langar aðeins að svara varðandi verkefnin sem nú þegar eru á borðinu um mengandi iðnað. Þá hef ég sagt að ég verð auðvitað að virða stjórnskipan landsins og mun gera það, ég virði stjórnskipan landsins, og ég er mjög leið yfir því að þessi verkefni fengu framgang hjá fyrri ríkisstjórnum, leið yfir því að Bakki (Forseti hringir.) sé á dagskrá. Við munum ekki fara í slíka fjárfestingarsamninga. En því miður verða þessar vondu ákvarðanir að halda áfram (Forseti hringir.) því að ég virði stjórnskipan landsins. En ég bendi þó á að oft er það t.d. fjármögnun í þessum verkefnum sem á endanum leiðir til þess að þau koma ekki til landsins.