146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:25]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. 9. þm. Norðaust. fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur, það verður ekkert úr því dregið. Þarna koma ýmsir þættir til álita og ýmis mikilvæg málefni sem hv. þingmaður vekur athygli á.

Mig langar aðeins að nálgast viðfangsefnið almennt fyrst. Meginvandinn sem við glímum við í dag myndi ég segja að sé tvíþættur. Annars vegar er sá óstöðugleiki sem hefur einkennt efnahagsumhverfi okkar allt, þar með talið fasteignamarkaðinn á undanförnum árum. Við glímdum við gríðarlegt offramboð húsnæðis á árunum fyrir hrun þar sem var byggt allt of mikið á skömmum tíma, sem leiddi til mikils vanda fyrir viðkomandi byggingarfyrirtæki þegar efnahagslífið hrundi árin 2008 og 2009 sem aftur leiddi til þess að hér var allt of lítið byggt á árunum þar á eftir. Í raun og veru er fyrst nú á síðustu tveimur, þremur árum sem við sjáum byggingarmarkaðinn rísa aftur úr öskustónni, bókstaflega, myndi ég segja. Þetta skapar okkur miklar áskoranir. Við höfum einfaldlega byggt of lítið þegar upp er staðið á síðustu árum. Þegar við bætist að húsnæði er að færast af almennum íbúðamarkaði yfir í ferðaþjónustu eykur það enn þörfina á nýju húsnæði.

Þarna skiptir miklu máli að byggingargeirinn sem slíkur búi við efnahagslegan stöðugleika, meiri fyrirsjáanleika, til þess að hann gangi ekki í gegnum þær öfgafullu sveiflur sem við höfum séð hann ganga í gegnum. Það eykur mönnum væntanlega kjark um að skipuleggja. Þetta er langur ferill, að byggja íbúðir. Það þarf góðan fyrirsjáanleika til þess að tryggja stöðugt framboð. Þetta er augljóslega vandamál hjá okkur sem við þurfum að bæta úr, bæði í upplýsingagjöf til markaðarins um þörf, með efnahagslegum stöðugleika til þess að byggja á og síðast en ekki síst, sem er auðvitað afleiðing vonandi meiri stöðugleika, lægra vaxtastigi sem hjálpar okkur öllum við að koma okkur þaki yfir höfuðið eða leigja, ef það er það sem við viljum.

Þetta er það sem er efst á baugi hjá nýrri ríkisstjórn, þ.e. hvernig við tryggjum þennan efnahagslega stöðugleika. Þar er spurt út í hugleiðingar míns flokks, Viðreisnar, um myntráð. Það er svo, já, að við endurskoðun peningastefnu er það ein af þeim leiðum sem er til skoðunar. Við hengjum ekki hatt okkar einvörðungu á umræðu um mögulega Evrópusambandsaðild við lækkun vaxtastigs, við viljum taka þétt utan um þetta mál, hvernig við getum lækkað vexti til frambúðar með bættri hagstjórn og endurskoðaðri peningastefnu. Það skiptir miklu máli fyrir húsnæðismarkaðinn.

Varðandi almennu íbúðirnar er stutta svarið er einfaldlega já. Við munum vinna áfram út frá þeim skuldbindingum sem síðasta ríkisstjórn gerði í tengslum við gerð kjarasamninga. Það mun koma í ljós hver eftirspurn verður eftir þessu úrræði. Þegar hafa verið veittir stofnstyrkir sem nema 2,1 milljarði núna í þessum mánuði. Ég held að 700 millj. kr. til viðbótar séu við það að verða afgreiddar. Síðan er þá eftir úthlutun þessa árs og áætlunin er að við þurfum um það bil 2,5–3 milljarða á ári til að geta mætt þeim 600 íbúðum að hámarki sem heitið var á ári. Það munum við í ráðuneytinu beita okkur fyrir að verði gert. Þetta er mikilvægt innlegg og mjög mikilvægt að vel verði staðið að þessari uppbyggingu.

Ég mundi vilja nefna að gripið hefur verið til úrræða varðandi heimildir til að nýta lífeyrissparnað til fyrstu kaupa, sem er jákvætt skref. Það hafa verið gerðar skattalegar breytingar til að ýta undir skattahagræði af leigu, sömuleiðis jákvætt skref. Ég tel áhugavert að skoða hvernig við styðjum við næsta stig, ef við erum að byggja upp félagslegt íbúðakerfi, þ.e. hvernig getum við beint stuðningi okkar þegar kemur að vaxtabótum eða húsnæðisbótum inn á mögulega þrengri hóp sem raunverulega þarf á aðstoðinni að halda en ekki dreifa honum of vítt og breitt eins og við höfum stundum verið gagnrýnd fyrir og leiðir á endanum bara til hækkandi fasteignaverðs og hækkandi leiguverðs. Þetta er eitthvað sem ég myndi vilja taka til skoðunar.

Fjölbreytt byggingarform er klárlega annað sem við þurfum að huga að. En síðast en ekki síst þurfum við að huga að framboði lóða. Þar kemur að sveitarfélögunum. Þar myndi ég kalla eftir því að sveitarfélögin samræmi áætlanir sínar en ekki síður þurfum við að huga að því að þétting byggðar er ekki eina lausnin okkar. Það er dýr kostur. Ef við erum að leita að ódýru litlu húsnæði fyrir ungt fólk þurfum við að geta útvegað það með hagkvæmum hætti. Við getum ekki einvörðungu byggt á þéttingu byggðar þótt það sé vissulega jákvætt og gott skref.

Þá held ég að (Forseti hringir.) ég hafi tæmt tíma minn, virðulegur forseti.

(Forseti (SJS): Það mun rétt vera.)