146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. 9. þm. Norðaust., Loga Einarssyni, fyrir að taka upp þessa umræðu. Það er mjög gott að fá hana. Mig langar rétt að taka smásviðsmynd um hvernig ástandið hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu 20 ár. Frá 1994–2016 fjölgaði íbúum Reykjavíkurborgar um 18,9%. Í Kraganum, nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar, fjölgaði um 70,6%. Stefnan hjá höfuðborginni undanfarin 20 ár hefur fyrst og fremst snúist um þéttingarreiti og á þeim eru byggðar dýrar eignir, raunverulega lúxusíbúðir eins og maður þekkir þessa dagana þegar maður er sjálfur að athuga með húsnæði hér. Það á við um höfuðborgina og nágrannasveitarfélögin líka. Það er verið að þétta og byggja mjög dýrar íbúðir, samanber Grafarholt og annað þegar menn drógu úr því.

Mig langaði rétt að beina því til félags- og jafnréttismálaráðherra hvort fyrirhuguð sé einhver greiningarvinna á þessu, hvernig menn ætla að skoða þessar sviðsmyndir sem eru komnar upp og hvað menn vilja skoða í því.

Það má líka t.d. benda á að 2010–2016 hefur íbúðum í Reykjavík fjölgað um 3,4% en á sama tíma í nágrannasveitarfélögunum um 9,4%. Í þeim miklu vandræðum sem hafa verið með húsnæðismálin á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár hafa fyrst og fremst nágrannasveitarfélögin sinnt vandanum. Það er mikið talað um ónógt lóðaframboð. Menn tóku upp stefnu í Reykjavík fyrir 20 árum síðan að bjóða upp lóðir og við sjáum gríðarlega hátt verð á lóðaverðmætum, 10–12 milljónir á íbúð heyrir maður núna. Þá er ég ekki að tala um höfuðborgina.

Svo getum við talað um ruðningsáhrifin af ferðaþjónustu og slíku en ég vildi rétt koma inn á það hvort menn séu til í að skoða þetta eitthvað í meira samhengi hlutanna.