146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem kom upp fyrir nokkrum vikum þegar tvær flugvélar Mýflugs gátu ekki lent á Reykjavíkurflugvelli vegna lokunar neyðarbrautar. Mig langar líka að benda á allan þann fjölda bókana sem hafa komið frá sveitarstjórnum vítt og breitt um landið á undanförnum vikum. Ég var að setja þetta niður á blað hérna rétt áðan, ég sé ekki betur en að þetta séu hátt í 10–15 bókanir nú þegar vítt og breitt um landið þannig að alvarleikinn er mikill og greinilega tekið mjög alvarlega á þeirri stöðu sem komin er upp.

Í fyrra voru um 700 manns fluttir í sjúkraflugi á Íslandi með flugvélum Mýflugs og rúmlega 100 manns hjá Landhelgisgæslunni þannig að menn sjái hlutföllin í þessu máli. Flutningunum hefur fjölgað sjálfsagt um helming á undanförnum áratug.

Að mínu viti er kominn sá tími núna á Alþingi að menn taki þessi mál svolítið lengra og með meiri upplýsingum og við förum að skoða raunverulega hvernig aðrar þjóðir taka á svipuðum málum eins og málefni Reykjavíkurflugvallar hafa verið, hvernig þær standa að öryggishagsmunum sínum og öryggisinnviðum í viðkomandi löndum. Við þurfum að skoða hvernig Svíar gera þetta, Danir, Norðmenn, Bretar, Hollendingar og nágrannaþjóðirnar. Við erum satt að segja komin mjög stutt í þessu miðað við nágrannaþjóðir hvað varðar öryggishagsmuni landsins og öryggisinnviði eins og flugvelli, raforkukerfi, vegi, brýr og slíka þætti. Einstök sveitarfélög verða að gera þetta í einhverri sátt við ríkisvaldið en ganga ekki gegn þeim hagsmunum sem ríkið hefur. Þetta er þekkt í öðrum löndum.

Þetta vildi ég rétt koma inn með hérna og að við gætum að þessu í umræðunni. Ég vonast til að við tökum góða umræðu um þetta á næstu misserum og að við náum að þroska þessa umræðu, taka hana lengra og ná einhvers konar niðurstöðu þar sem allir landsmenn geta verið í sátt í þessu máli því að hagsmunirnir eru gríðarlegir. Ég bendi á það að á síðasta ári eru það u.þ.b. 350 manns sem eru í forgangssjúkraflugi þar sem um er að ræða lífshættu eða lífsógn. (Forseti hringir.) Þetta er einn á dag bara með Mýflugi til Reykjavíkur. Þá er ótalinn fjöldinn með Landhelgisgæslunni á þyrlum Gæslunnar.


Efnisorð er vísa í ræðuna