146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fjármálastefnan fyrir árin 2017–2022 er nú lögð fram í samræmi við lög um opinber fjármál. Í 10. gr. þeirra laga stendur, með leyfi forseta:

„Ef grundvallarforsendur fjármálastefnu bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum, skal ráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um breytingar á stefnunni eins fljótt og kostur er.“

Við erum hér ekki að ræða eitthvert lítið og léttvægt plagg þó að textinn sé ekki upp á margar síður. Þetta er stefna sem sett er fyrir næstu fimm ár, eða fyrir kjörtímabilið. Henni má ekki breyta nema eitthvað stórkostlegt komi upp á. Þess vegna er svo mikilvægt að fara mjög vandlega yfir allar forsendurnar, yfir rammann sem settur er. Fjármálaráðið, sem á líka samkvæmt lögum um opinber fjármál að meta stefnuna og athuga hvort hún sé í samræmi við fjármálareglurnar og þau gildi sem eru undir lögunum um opinber fjármál, mun skila umsögn sinni eftir tvær vikur. Fjárlaganefndin mun síðan auðvitað fara mjög vandlega yfir þetta allt saman. Ég hlakka til að fá umsögn fjármálaráðsins sem væntanlega er þá með aðgang að gögnum sem við höfum ekki enn fengið að sjá sem eru undir þessari stefnu.

Eins og fram hefur komið í umræðunum voru deilur um 7. gr. laganna um opinber fjármál þegar við vorum að fara yfir lögin um opinber fjármál og eins um greinarnar þar á eftir, um fjármálareglurnar. Að öðru leyti voru þau lög samþykkt í góðri sátt enda komu að samningu þess frumvarps fjórir fjármálaráðherrar. Fjármálareglurnar komu nýjar inn og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra lagði áherslu á að þær yrðu þar inni þrátt fyrir óeiningu sem um þær eru.

Talað er um það í texta með stefnunni að mikilvægt sé að nota ríkisfjármálin til sveiflujöfnunar, en greinarnar í opinberu fjárlögunum takmarka einmitt þann sveigjanleika að nota megi öryggisfjármálin til sveiflujöfnunar.

Talað er um efnahagshorfur í greinargerð með stefnunni. Meðal annars kemur fram að gert er ráð fyrir kröftugum hagvexti á árinu 2017, eða um 5%, og að hann verði í kringum 3% á síðari hluta tímabils. Innlend eftirspurn, einkum einkaneysla, atvinnuvegafjárfestingar og vöxtur ferðaþjónustu eru þar aðaldrifkraftarnir. Dregið er fram í greinargerð um efnahagshorfurnar, eins og fram hefur komið í mörgum öðrum greiningum frá opinberum stofnunum og öðrum, að það eru veikleikamerki og hættumerki í hagkerfinu núna. Þar er alltaf dregið fram að ósjálfbær vöxtur ferðaþjónustunnar feli í sér hættumerki ef þetta heldur áfram svona. Vöxturinn hefur áhrif á gengið, hann hefur á styrkingu krónunnar og á spennu á húsnæðismarkaði, einkum á ákveðnum landsvæðum o.s.frv. Allt hefur þetta stórkostleg efnahagsleg áhrif. Það hlýtur að vera, virðulegur forseti, að stjórnvöld þurfi að beita tækjum sínum til þess að reyna að draga úr hættunni.

Komið hefur fram í umræðum fyrr í dag að hæstv. ríkisstjórn hyggst ekki taka á vexti ferðaþjónustunnar eða beita þar þeim möguleikum sem ríkið hefur eða þeim hvötum sem ríkið hefur, annaðhvort með sköttum eða gjöldum. Þetta er stærsta atvinnugrein landsins. Hún er á hæsta skattstyrk. Það er ekkert sambærilegt við þann skattafslátt sem þeir fá sem nýta sér ferðaþjónustuna, sem eru að mestu leyti erlendir ferðamenn. Afslátturinn í neyslusköttum er þar umtalsverður og í fjárlagafrumvarpinu er skattafsláttur til ferðaþjónustunnar metinn á um 20 milljarða. Það er eitthvað bogið við það þegar stærsta atvinnugreinin er með slíkan afslátt.

Í greinargerð með stefnunni er talað um að það sem drífa þurfi hagvöxt framtíðarinnar sé nýsköpunar- og sprotastarfsemi. Þar ættum við auðvitað að beita hvötunum til þess að ýta undir að nýsköpun og sprotastarfsemi nái þeirri stöðu að geta orðið undirstaða fyrir hagvöxtinn í framtíðinni.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talaði um að gjöldin sem þau ætluðu að setja á og tengdust ferðaþjónustunni væru bílastæðagjöld. Virðulegur forseti verður að fyrirgefa mér þó að mér finnist það svolítið spaugilegt í þessu samhengi að tala um að það sem gera þurfi í ferðaþjónustunni sé að setja á bílastæðagjöld. Það er bara fínt fyrir bílastæðin og rekstur þeirra, en varla dugar það fyrir álagi á heilsugæsluna, á lögregluna, á vegina, á sjúkraflutninga, sem fylgja ósjálfbærum vexti ferðaþjónustunnar. Það hlýtur að þurfa að bregðast við þessum hættumerkjum með einhverju móti, eða er hugmyndin sú að almenningur í landinu beri þann kostnað annaðhvort með skertri þjónustu eða hærri álögum?

Við erum nú ofarlega í hagsveiflunni. Við þekkjum það, Íslendingar, að við förum upp og niður. Þegar maður er á toppnum hefur það verið talin góð latína að lækka ekki skatta. Við ættum auðvitað að tala hér um hærri veiðigjöld, hærri neysluskatta á ferðamenn, hugsanlega þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt og alvöruhátekjuskatt í þessu árferði og búa þannig til svigrúm til þess að efna þau loforð sem eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að setja aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og í öldrunarþjónustuna. En í textanum er talað um að ekki sé óhætt að fara í varanlega útgjaldaaukningu á kjörtímabilinu við þær aðstæður sem lýst er í textanum með fjármálastefnunni, á grundvelli þess afgangs sem búinn er til vegna hagsveiflunnar. Ef dæmið yrði leiðrétt fyrir hagsveiflunni væri reksturinn í járnum.

Ég hef áhyggjur af því að hér sé verið að senda okkur þau skilaboð að staðan sé bara svona og að það eigi ekki að gera neitt í henni, það eigi ekki að skapa svigrúm fyrir velferðarkerfið og stoppa í þau göt sem þar eru. Ég hef áhyggjur af því að verið sé að senda okkur slík skilaboð þar sem gildi fjármálastefnunnar sé varfærni og því sé óvarlegt og ekki í samræmi við lög um opinber fjármál að fara í varanlega útgjaldaaukningu í velferðarkerfinu.

Tíminn er allt of stuttur. Ég á alveg eftir að tala um slagorðið „Breytum vöxtum í velferð“, sem er greinilega búið að setja á hilluna því að það á að breyta vöxtum í afgang.