146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjómannaverkfallið.

[14:28]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sjómannaverkfallið hefur nú staðið í yfir einn og hálfan mánuð og er farið að hafa víðtæk áhrif á þau sveitarfélög sem eru háð sjávarútvegi. Í sumum tilfellum er um að ræða að 40% tekna þeirra komi óbeint eða beint frá sjávarútvegi eins og fram kom í viðtali við Pál Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóra í Fjarðabyggð í Morgunblaðinu í dag.

Af þessu má ljóst vera að talsverð óvissa ríkir hjá mörgum sveitarfélögum vegna verkfallsins auk þess sem mörg þessara samfélaga hafa haldið að sér höndum hvað varðar fjárfestingar og samneyslu. Ljóst er að sjómenn og fjölskyldur þeirra finna verulega fyrir verkfallinu og fiskverkafólk lendir nú í alvarlegum vandræðum.

Að auki eru erlendir markaðir að glatast vegna þess að ekki er hægt að koma ferskum fiski að.

Því vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fyrsta lagi: Hefur ráðuneytið metið hversu lengi sjómannaverkfallið geti staðið án þess að valda varanlegum skaða í þessum byggðarlögum? Í öðru lagi: Hefur ráðherrann látið reikna út hver skaðinn verður í þessum byggðarlögum og hvert þjóðhagslegt tap er vegna sjómannaverkfallsins? Í þriðja lagi: Hyggst ráðherrann reyna að liðka til við að leysa sjómannaverkfallið? Ef svo er: Með hvaða hætti? Og í fjórða lagi: Er verið að skoða mótvægisaðgerðir í þessum byggðarlögum?