146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun. Hér er um að ræða forgangsmál okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri. Flutningsmenn þessarar tillögu eru allir hv. þingmenn Framsóknarflokksins en sá hv. þingmaður sem hér stendur, Elsa Lára Arnardóttir, er framsögumaður málsins. Aðrir hv. þingmenn eru Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Alfreðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Umrædd þingsályktunartillaga fjallar um að Alþingi álykti að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Heilbrigðisáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í desember 2017.

Virðulegur forseti. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að markmiðið með þingsályktunartillögunni sé að vinna að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru margir á þeirri skoðun að bæta þyrfti heilbrigðiskerfið á Íslandi og voru Framsóknarmenn þar á meðal. Sérstaklega var rætt um mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fjármagn til málaflokksins, eins og gert var á síðasta kjörtímabili undir stjórn Framsóknarflokksins. Í þessu samhengi var m.a. bent á McKinsey-skýrsluna sem kom út haustið 2016 málinu til stuðnings en þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Heildarframlög til heilbrigðismála á Íslandi árið 2014 námu 8,8% af vergri landsframleiðslu sem er nálægt meðaltali OECD en lægra en annars staðar á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu. Mat á útgjaldaþörf til heilbrigðismála á Íslandi krefst þess að horft sé til skilvirkni annarra heilbrigðiskerfa og tekið mið af land- og lýðfræðilegum þáttum sem áhrif hafa á þörf landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Ýmsir undirliggjandi þættir eru fyrir hendi á Íslandi sem hafa áhrif á skilvirkni og gæði heilbrigðisþjónustunnar og draga úr útgjaldaþörf til heilbrigðiskerfisins. Aftur á móti er einnig að finna óskilvirkni í íslenska heilbrigðiskerfinu sem veldur aukinni útgjaldaþörf.“

Þetta gefur til kynna nauðsyn stefnumótunar í heilbrigðismálum en í lokaniðurstöðum McKinsey-skýrslunnar segir jafnframt:

„Það eru áhugaverðir tímar í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið stóð frammi fyrir miklum erfiðleikum í kjölfar bankahrunsins þegar fjárframlög til þess voru skert verulega en tókst að komast í gegnum erfiðleikana og veita áfram gæðaþjónustu. Þróunin á Landspítalanum var að mörgu leyti táknræn fyrir þetta tímabil. Spítalanum tókst að lækka kostnað umtalsvert án þess að fórna gæðum þjónustunnar samhliða síaukinni eftirspurn. Þrátt fyrir aðdáunarverða frammistöðu á síðustu árum er ekki allt eins og best verður á kosið í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það skortir skýrari verkaskiptingu milli hinna ýmsu veitenda heilbrigðisþjónustunnar og sömuleiðis stjórntæki sem gera kleift að stýra þróuninni. Auk þessa hefur í þessari skýrslu verið bent á nokkur kerfislæg vandamál sem takmarka kostnaðarhagkvæmni eða vekja upp spurningar um gæði þjónustu í ákveðnum hlutum kerfisins.

Nú þegar verið er að auka framlög til heilbrigðismála á Íslandi hefur skapast einstakt tækifæri til að takast á við þessi vandamál og tryggja að íslenska heilbrigðiskerfið veiti gæðaþjónustu á öllum sviðum á hagkvæman hátt. Með skýrri stefnu í heilbrigðiskerfinu og auknum fjárveitingum þangað sem þörfin er mest verður tryggt að fjárfestingarnar nýtist sem best sem leiðir til sterkara og hagkvæmara kerfis.“

Í ljósi þessara niðurstaðna sem birtast í McKinsey-skýrslunni og vegna skorts á stefnu í heilbrigðismálum leggja flutningsmenn tillögunnar til að unnin verði heilbrigðisáætlun fyrir Ísland og að sú vinna verði unnin eins skjótt og auðið er. Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að fagfólk í heilbrigðisstéttum komi að vinnunni því það þekkir best til og gagnlegt er að nýta þekkinguna og mannauðinn sem fyrir hendi er. Mikilvægt er að fagfólk komi víða að af landinu því aðstæður í heilbrigðiskerfinu geta verið mismunandi eftir því hvort unnið er á stórum spítala eða á minni heilbrigðisstofnun á landsbyggðinni. Við gerð heilbrigðisáætlunarinnar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga, eins og fram kom hér að framan. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða og aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álaginu af Landspítala. Og eins og að framan segir að heilbrigðisáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í desember 2017.

Virðulegur forseti. Í þingskjali við fyrirspurn minni sem ég fékk svör við þann 7. apríl síðastliðinn kemur m.a. fram að áður en heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið urðu eitt ráðuneyti, þ.e. velferðarráðuneyti, en það var 1. janúar 2011, hafi heilbrigðisráðuneytið um nokkurt skeið unnið að nýrri heilbrigðisáætlun. Við sameiningu ráðuneytanna var ákveðið að heilbrigðisáætluninni yrði breytt í ljósi verkefna nýs ráðuneytis. Á 141. löggjafarþingi, þ.e. á árunum 2012–2013, var lögð fram velferðarstefna eða heilbrigðisáætlun í formi þingsályktunartillögu sem ekki var afgreidd. Eftir kosningar til Alþingis 2013 var verkefnum sem áður heyrði undir velferðarráðherra skipt milli tveggja ráðherra, þ.e. heilbrigðisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra. Síðan þá hefur hæstv. heilbrigðisráðherra unnið að gerð heilbrigðisstefnu. Jafnframt kemur fram í svarinu, sem kom í þingskjali þann 7. apríl 2016, að ráðherra hafi ætlað sér á næstu dögum að kynna tillögu að heilbrigðisstefnu og hefja áform um að leggja hana fram á Alþingi sem þingsályktunartillögu að hausti, þ.e. síðasta haust.

Skemmst er frá því að segja að umrædd tillaga kom aldrei fyrir Alþingi. Líklega er það vegna þess að kosningar fóru fram í haust og við þekkjum öll framhaldið um niðurstöður kosninga og stjórnarmyndunarviðræður.

Virðulegur forseti. Mig langar í seinni hluta þessarar stuttu ræðu minnar að vitna í fréttir sem ég hef safnað að mér við vinnslu málsins og vegna þess áhuga sem ég hef á stefnumótun í heilbrigðismálum.

Í fyrsta lagi er frétt frá 22. september 2015, en þá sagði þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, með leyfi forseta:

„Skortur er á heildrænni yfirsýn yfir heilbrigðiskerfið og engin raunveruleg stefnumótun til lengri tíma hefur átt sér stað í málaflokknum hér á landi.“

Þetta sagði hann á fundi Viðskiptaráðs sem fjallaði um heilbrigðismál. Á þeim tíma var unnið að gerð heilbrigðisáætlunar, eins og fram kom í ræðu minni rétt áðan, í ráðuneyti þáverandi hæstv. ráðherra. Sú heilbrigðisáætlun var eingöngu lögð fram til kynningar og eins og ég sagði áðan vegna haustkosninga kom hún ekki fyrir þingið og verður jafnframt að taka það fram í þessari ræðu að heilbrigðisáætlun er ekki á þingmálaskrá hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra, Óttars Proppés, þ.e. á núverandi þingi.

Í öðru lagi er frétt frá 16. ágúst 2016, en fyrirsögn þeirrar fréttar er: Vill skýra stefnu og pólitíska samstöðu.

Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Birgir Jakobsson landlæknir segir nauðsynlegt að setja mjög skýra stefnu í heilbrigðismálum hér á landi, …“

Í sömu frétt segir hann jafnframt, með leyfi forseta:

„Ég vonast eftir breiðri pólitískri samstöðu um það hvernig Íslendingar vilja að heilbrigðiskerfið þróist.“

Í þriðja lagi langar mig að vitna í ræðu hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra í umræðum um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. En þar segir hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„Eitt meginstefið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er samhæfð, örugg og aðgengileg heilbrigðisþjónusta. Þrátt fyrir að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé að mörgu leyti mjög góð þá þarf að samhæfa hana enn betur og líta á alla þætti hennar sem hluta af sömu heild. Áform nýrrar ríkisstjórnar miða að því að tengja betur þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, heimaþjónustu og hjúkrunarheimila. Með því að styrkja heilsugæsluna, heimaþjónustu og hjúkrunarheimili, svokallaða grunnþjónustu, verður dregið úr þörf fólks til að sækja dýrari og flóknari þjónustu.“

Hér sé ég ekki betur en að hæstv. heilbrigðisráðherra sé að leggja áherslu á mikilvægi stefnumótunar í málaflokknum.

Virðulegur forseti. Ég trúi því og treysti að hæstv. ríkisstjórn, hv. þingmönnum hennar, sé alvara með áherslum sínum á mikilvægi samtalsins og samvinnunnar. Ég bind því miklar vonir við að orð þeirra hæstv. ráðherra sem vitnað hefur verið í hér að framan séu til marks um að þessi mikilvæga þingsályktunartillaga nái fram að ganga.

Að lokum vil ég segja þetta. Það er okkur flutningsmönnum tillögunnar sérstaklega ánægjulegt að málið sé komið á dagskrá þingsins því að um er að ræða afar mikilvægt mál. Stefnumótunar er þörf í þessum stóra mikilvæga málaflokki sem snertir okkur öll, landsmenn alla. Það er okkar von að málið fái góða efnislega vinnslu innan hv. velferðarnefndar Alþingis og allir hv. þingmenn leggist á eitt um að koma málinu áfram. Það er skoðun okkar Framsóknarmanna að landsmenn allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu sama hvar á landinu við búum, að allir landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og að allir landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð því hvaða stöðu þeir gegna.

Við Framsóknarmenn viljum jafnframt að kostnaður sjúklinga í greiðsluþátttökukerfi verði minnkaður og verða mikilvæg skref stigin í þeim efnum síðar á þessu ári. Það þarf þó að ganga lengra og lækka það þak enn frekar og koma fleiri þáttum heilbrigðisþjónustunnar undir það þak. Má þar nefna m.a. tannlækningar, hjálpartæki og sálfræðiþjónustu og ferðakostnað sjúklinga. Það er okkar trú að með skýrri stefnu nái þetta allt fram að ganga.

Við flutningsmenn leggjum til að þessi þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun gangi til hv. velferðarnefndar.