146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

starfshópur um keðjuábyrgð.

69. mál
[16:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir þessa framsögu. Mér finnst umrædd þingsályktunartillaga mjög áhugaverð. Í ljósi þess að ég veit að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir er mjög reynd hér á þingi, hefur setið hér fleiri kjörtímabil en ég alla vega, langar mig að spyrja hana hvort þessi umræða hafi farið fram áður í þingsal. Ég kannast við umræðuna af vettvangi sveitarstjórna. Sum sveitarfélög hafa sett það inn í sínar innkaupareglur að sveitarfélögin sjálf beri ákveðna ábyrgð þegar þau kaupa þjónustu. Ég held að það hafi verið mjög vel til fundið. Þetta er vel til fundið bæði út frá vinnumarkaðslöggjöfinni, að réttindi séu uppfyllt, vegna hættu á mansali og öðru þess háttar, en ekki síður fyrir heilbrigði verktakamarkaðarins, sérstaklega þar sem það hefur oft tíðkast að mikið sé um undirverktöku. Sumir litlir verktakar hafa gjarnan orðið undir í slíkri baráttu.

Mig langaði að heyra frá þingmanninum hvort þessi umræða hafi farið fram hér áður og hvort það hefði kannski verið rannsakað og skoðað eitthvað innan ráðuneytanna eða á vettvangi þingsins hvernig hægt væri að framkvæma þetta.