146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að mörkuð sé heildstæð heilbrigðisstefna enda kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum að það stendur til. Þá þarf að horfa til alls heilbrigðiskerfisins eins og það liggur fyrir.

Ég held að það sé fulldjúpt í árinni tekið hjá hv. þingmanni að skilja orð mín sem svo að hér standi fyrir dyrum grundvallarstefnubreyting, vegna þess að vissulega hefur hið opinbera gert samninga við einkaaðila. Stór hluti heilbrigðisþjónustunnar er nú þegar rekinn af einkaaðilum, sjálfseignarstofnunum, sérfræðingum o.s.frv. Reglulega hefur verið samið um fyrst og fremst einfaldari aðgerðir við einkafyrirtæki í tengslum við biðlistaátakið sem hefur verið í gangi og verður áfram í tvö ár í viðbót.

Ég get fullvissað hv. þingmann og þingheim allan um að sá ráðherra sem hér stendur mun ekki gera (Forseti hringir.) grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Það stendur ekki til. Fyrsta verk mitt er að vinna að heildstæðri heilbrigðisstefnu áður en nokkuð annað verður gert.