146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að byrja á að lýsa undrun minni á andsvari hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar. Ég skildi hann ekki öðruvísi eftir fyrra andsvar en að hér væri að myndast samstaða með ríkisstjórnarflokki og stjórnarandstöðuflokki. Mér fannst hann tala þannig í fyrra andsvari. En svo kom í ljós að reyndin var allt önnur þegar hann kom upp í sitt seinna andsvar. En svo lengi lærir sem lifir.

Mig langar að spyrja hv. þm. og fyrsta flutningsmann þessarar tillögu, Oddnýju G. Harðardóttur, aðeins nánar út í efni tillögunnar. Í því ákvæði til bráðabirgða sem á að bætast við 1. gr. segir að bjóða eigi viðbótarkvóta út til hæstbjóðanda en síðan skuli ráðherra með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd útboðsins.

Í greinargerðinni er aðeins farið yfir að í útfærslu tilboðsleiðarinnar skuli setja reglur sem taki tillit til byggðasjónarmiða, komi í veg fyrir samþjöppun og virði sérstöðu minni útgerða. Ég verð að játa að mér finnst þetta dálítið opið. Í fyrsta lagi: Ef maður ætlar að taka tillit til þeirra þátta sem eru í greinargerðinni er maður væntanlega ekki alltaf að bjóða út til hæstbjóðanda, eða hvað? Stundum þarf að taka lægra boði því að einhver útgerð er komin með upp í þakið sem hún má kaupa, ekki satt? Það verður að taka tillit til byggðasjónarmiða, eða hvað? Mér finnst ákveðið ósamræmi í tillögunni sjálfri og svo greinargerðinni og að auki finnst mér þetta, eins og ég sagði áðan, dálítið opið.

Hafa flutningsmenn engar tillögur um það hvernig þessar reglur skuli vera? Eða treysta þeir því bara að ráðherra muni setja þær og uppfylla þar með öll þau sjónarmið sem flutningsmenn hafa væntanlega í þessum efnum?