146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einhver talaði áðan um að ég væri með undarlega ræðu. Nei, það er að vísu ekkert sjálfgefið að tækniframfarir séu bundnar við aflamarkskerfið. En við sem eru eldri en tvævetur munum tíma stöðnunar, lélegrar nýtingar, þegar illa var farið með auðlindina. Svo var komið á kerfi, sem ég vil nú þakka hæstv. forseta þingsins að mestu þó að hann sé ekki í sama flokki og ég, aflamarkskerfi og framsal. Þær breytingar urðu svo hraðar eftir það og krafturinn og dýnamíkin, og menn fóru allt öðruvísi með hráefnið. Menn hagræddu í rekstrinum eftir langt stöðnunartímabil. Og tækniframfarirnar, krafan um betri nýtingu. Hvernig verða til fyrirtæki eins og Marel? Vegna þess að útgerðin gerði kröfur um hámarksnýtingu, lagði pening í það, og sagði að við skyldum gera vel því að nú værum við tryggir, við hefðum rétt til veiðanna, við gætum haft einhverja framtíðarsýn, við gætum skipulagt okkur. Það varð til þess að hér varð arðbær og sjálfbær sjávarútvegur. Það er meginskýringin á því.

Svo koma menn hér og ætla bara að henda þessu út og bjóða einhverjum einhvers staðar að veiða sem jafnvel kann ekki að veiða en hefur aðgang að lánsfé, það er framtíðarsýnin. Mér finnst engin framtíðarsýn í því.