146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[16:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég vil líka þakka málshefjanda, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir að hefja máls á þessu efni. Þetta er eitt stærsta málið sem við erum að vinna í og vonandi setur það brag sinn á framkvæmd opinberra fjármála um langa tíð.

Einn megintilgangur þessara nýju laga er að efla faglega umræðu um þennan málaflokk, eins og komið hefur fram, að setja opinberum fjármálum betri ramma og tryggja að nægur tími gefist til að ræða heildarmyndina áður en farið er að vinna við einstök atriði ríkisfjármálanna. Það er alveg ljóst að gagnið af hinni nýju nálgun mun aukast með tímanum, þegar við förum að njóta þess að geta borið saman rauntölur við fyrri fjármálastefnur og svo framvegis. Við búum líka núna við aðstæður sem óþarfi er svo sem að tíunda frekar, en við erum að vinna í þessum málum og erum nokkuð langt á eftir áætlun, eins og öllum er ljóst. Vorið, og þar með framlagning fjármálaáætlunarinnar, er handan við hornið á meðan við erum enn að ræða fjármálastefnuna. En breytingin er í heild sinni af hinu góða og setur vonandi jákvæðan brag á fjárlagavinnuna og opinber fjármál almennt í náinni framtíð.

Það er eitt sem mig langar sérstaklega að nefna í tengslum við hin nýju lög, og hefur svo sem komið fram í umræðunni, bæði hjá hv. málshefjanda og öðrum. Það er hvernig hin nýju vinnubrögð koma við hina ýmsu smærri aðila sem hafa til þessa getað leitað beint til fjárlaganefndar í tengslum við fjárlagavinnuna í leit að stuðningi. Þeir leita eftir styrkjum eða greiðslum úr ríkissjóði við einhver verkefni, eiginlega stór sem smá. Með hinum nýju lögum fylgir sú breyting að skilgreining fjárheimildanna er niður á málefnasvið og málaflokka í stað þess að fara niður í fjárlagaliði. Markmiðið er náttúrlega að reyna að bæta hina efnislegu umræðu um stefnu stjórnvalda og þingsins í mismunandi málaflokkum og ræða heildarframlögin þar til lengri tíma frekar en framlög til (Forseti hringir.) einstakra stofnana eða verkefna til eins árs í senn. (Forseti hringir.)

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að skapa þær aðstæður í fagráðuneytunum að þessir smærri aðilar hafi þar góðan aðgang og að beiðnir þeirra og ábendingar fari í faglegan farveg. Það er ráðuneytanna að tryggja það. (Forseti hringir.) En ég ítreka að þetta er mjög mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem verið er að hanna hér með það að markmiði að efla faglega vinnu. Jafnframt þarf að tryggja að kjörnir þingmenn (Forseti hringir.) geti sinnt eftirlitsskyldu sinni framvegis.