146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[16:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Við fyrstu sýn þótti mér hún tiltölulega þurr en hún er hins vegar mjög áhugaverð út frá umræðum um hvað við eigum við með stefnumörkun, hvað við eigum við með því að við ætlum að marka fjármálastefnu. Það kemur fram í spurningum þingmannsins til hæstv. fjármálaráðherra að í stefnunni sé lögð megináhersla á heildarafkomu og skuldir, en fjármálastefnan hlýtur að felast í svo mörgu öðru. Þegar maður mátar fjármálastefnuna við nýja stjórnarsáttmálann, þótt maður verði að virða hæstv. ráðherra það til vorkunnar að hann var tiltölulega nýkominn inn í ráðuneytið þegar stefnan var lögð fram í þinginu, þá spyr maður sig hver ástæðan er fyrir því að ekki var hægt að taka alla vega upphafsorðin úr stjórnarsáttmálanum og setja þau inn í þetta plagg. Í þeim er lögð áhersla á jafnvægi og framsýni, að það eigi að vera eftirsóknarvert að búa á Íslandi, það er talað um mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð og að stuðlað verði að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt. Það hlýtur þá að vera meginmarkmið, það sem við ætlum að gera með því að tryggja að afgangur sé af ríkisfjármálunum.

Þegar maður les í gegnum fjármálastefnuna finnst manni hins vegar frekar vera áhersla á aukinn afgang en ekki hvernig við ætlum að ná honum fram.

Ég vil líka ítreka að það kom ekki fram í svörum ráðherrans, og vonandi getur hann bætt úr því þegar hann kemur hér, hvernig þessi tala er fengin, 41,5%, að heildarútgjöld hins opinbera verði ekki umfram það af vergri landsframleiðslu á tímabilinu. Hvaðan kemur það viðmið? Miðað við upplýsingar OECD erum við nú þegar með lægri heildarútgjöld (Forseti hringir.) hlutfallslega en öll hin norrænu ríkin, þrátt fyrir að við séum t.d. ekki með her. Ég mundi vilja fá svar við því hvaðan þessi tala kemur, að hún sé ekki tekin upp úr tóminu heldur sé (Forseti hringir.) einhver hugsun að baki henni.