146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason sagði að hér ætti ekki að ræða heilbrigðismálin út frá pólitískum forsendum. Það ætla ég nú að gera vegna þess að ég tel að það skipti afar miklu máli. Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að 80% þjóðarinnar telja að heilbrigðisþjónustan eigi að vera í opinberum höndum en í dag geta þó einstakir ráðherrar sveigt frá þessu, hægt og rólega, jafnvel án þess að það fattist.

Þannig sagði fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra í síðustu ríkisstjórn í þingræðu 10. maí sl., með leyfi forseta:

„Í fjárlögum er heimild til þess að fjölga heilsugæslustöðvum. Rekstrarfyrirkomulagið er ekki löggjafarmál, greiðslufyrirkomulag í heilbrigðisþjónustunni er ekki löggjafarmál, kröfulýsing og skilgreining á þeim kröfum sem gerðar eru faglega um rekstur heilsugæslustöðva er ekki löggjafarmál. Þetta eru allt saman verkefni sem löggjöfin hefur vistað í stjórnsýslunni.“

Nákvæmlega þess vegna endurflutti Samfylkingin mál sem tryggir að ráðherrar geta ekki gert grundvallarbreytingar á kerfinu án aðkomu Alþingis. Með öðrum orðum þurfi að liggja fyrir ályktun Alþingis frá ráðherra eða þingmönnum í formi þingsályktunartillögunnar um hvort ráðherra sé heimilt að ganga til samninga um rekstur heilsugæslu- og heilbrigðisstofnana. Í því felst að ráðherrar og þingmenn leggi þetta fyrir á Alþingi og þar sé umræðan tekin. Þannig verði markaður skýr rammi utan um það umboð sem ráðherra hefur til samningsgerðar hverju sinni. Í tilefni af því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, vegna þess að ég tel þetta mikilvægt mál, hvort hann telji það fyrirkomulag sem við erum núna með heppilegt og að við eigum að halda því áfram eða hvort hann sé sammála Samfylkingunni og frumvarpinu sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir flutti um það að formið þurfi að vera bundnara.