146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:03]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að auka eftirlit með fjármálastarfsemi og ekki síst samsteypum af þessu tagi. En þó veiti ég því athygli að frumvarpið er nánast í heild sinni nú þegar að finna í reglum Fjármálaeftirlitsins. Um 55% frumvarpsins er orðrétt í reglunum og þegar númer töluliða og einstakar orðalagsbreytingar eru undanskilin fer það vel upp í 90%.

Helstu viðbætur sýndust mér vera frekar ómerkilegar. Það gæti verið að ég hafi misst af einhverju þar. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða árangri er ætlað að ná með að lögfesta þetta, fyrir utan það að ná að vinna á innleiðingarhalanum gagnvart EES samningnum? Það er í sjálfu sér ágætt markmið að stytta þann hala, en það vekur samt spurningar um hvort þetta sé forgangsmál hjá hv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Því spyr ég: Liggur á þessu? Hvað veldur þessari forgangsröðun? Er eitthvað annað sem hefði frekar átt að koma fyrr í ferlinu eða er það bara þannig að þetta var nú þegar til í ráðuneytinu og þar eru kannski teknar ákvarðanir fram hjá hæstv. ráðherra? Ég spyr þessara spurninga til þess að reyna að átta mig á ferlinu því að þetta er eitt af mörgum málum sem koma fram núna þar sem um mjög tæknileg atriði er að ræða, sem er að mörgu leyti gott, en hugsanlega væri hægt að skilja ferlið aðeins betur.