146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil líka árétta að uppi hafa verið sjónarmið, nánast óskir um að bundið verði í lög að við skipun hæstaréttardómara verði sérstaklega litið til hinna og þessara starfsstétta. Ég hef ekki verið talsmaður þess að það sé gert, t.d. að binda það í lög að tiltekið margir eigi að vera með reynslu af lögmannsstörfum eða úr stjórnsýslunni og þar fram eftir götunum. Að sama skapi tel ég ekki til velfarnaðar fallið almennt að hugsa skipun í jafn mikilvæg embætti og dómarastörf eru með þeim hætti sem fyrirspyrjandi er að kalla eftir að mögulega sé gert, ef ég skil hann rétt, að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða. Mér finnst þessi umræða ekki heldur vera jafnréttisumræðunni til framdráttar, ef ég má segja það.

Spurt er um hvort jafnréttislögin gildi um (Forseti hringir.) dómstólana. Ég myndi hallast að því að lög sem almennt gilda í landinu gildi auðvitað um öll svið samfélagsins, þar með talið dómstóla.