146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er kannski rétt að kalla þetta einhvers konar hjáleið sem að þessu sinni er viðhöfð í þetta einstaka skipti við skipan í fyrsta sinn við Landsrétt, þ.e. að mál um skipan 15 dómara sé lagt fyrir Alþingi, af því það er alla jafna ekki gert.

Ég sé ekki ástæðu til annars en að um þessa staðfestingu gildi sömu reglur og gildi almennt um það þegar Alþingi staðfestir tilnefningar Alþingis í ýmsar nefndir eða kýs menn í nefndir. Þá er það bara með einföldum meiri hluta. Þannig er nú bara lýðræðið. Naumur meiri hluti er bara meiri hluti, þannig er lýðræðið. Þar fyrir utan á ég ekki von á að uppi verði fótur og fit í sölum Alþingis vegna skipan dómara við Landsrétt, enda teldi ég það ákaflega óheppilegt ef menn ætluðu að afgreiða þetta mál með pólitískum gleraugum og líta á þessa dómara sem dómara viðkomandi ráðherra í það og það skiptið. Það er auðvitað ekki þannig. Um alla umsækjendur fjallar nefnd sem í eiga sæti einstaklingar sem hafa verið valdir af ýmsum aðilum til að fjalla um hvort menn séu hæfir eða ekki hæfir. Það er ákaflega varhugavert svo ekki sé meira sagt, tel ég, ef menn ætla strax í upphafi að líta á þetta sem einhvers konar stjórnarmeirihlutamál. Mér fyndist það miður ef svo yrði.