146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég kom hér áðan upp í andsvör við ráðherra og var svo mikið niðri fyrir að óska hæstv. ráðherra til hamingju með sitt fyrsta stjórnarfrumvarp og framlag hans til íslensks máls að mér láðist alveg að óska forseta til hamingju með frumraun sína í forsetastóli og þakka henni eins og svo fjöldamörgum öðrum innflytjendum fyrir framlag sitt til íslensks samfélags.

Í andsvari mínu áðan kom ég inn á tvö lítil atriði sem ég rak augun í þegar ég skautaði í gegnum frumvarpið á meðan ég horfði með öðru auganu á Ævar vísindamann í sjónvarpinu í gærkvöldi. Ég get ímyndað mér að það sé eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á áðan; þetta er risastórt mál og í jafnvel minnstu greinum svona máls geta leynst pyttir. Ég vona að nefndin gefi sér góðan tíma í að fara vel yfir að því að eins og við höfum talað um fyrr í dag skiptir ekki bara máli að innleiða EES-regluverkið tímanlega heldur að innleiða það vel.

Ráðherra verður tíðrætt um að hér sé á ferðinni hrein innleiðing. En svo kemur í ljós þegar nánar er að gáð að svo er kannski ekki endilega. Eins og ég benti á áðan er í 5. gr. frumvarpsins gerð krafa um að rekstraraðili skuli hafa staðfestu hér á landi sem er talsverð þrenging frá þeirri reglu sem er í EES-samningnum. Þar er skilyrðið að staðfesta sé í einhverju aðildarríki EES en til að vera með starfsemi í aðildarríki þurfi að vera starfsstöð þar.

Ráðherra sagði að í ráðuneytinu hefði verið talið mikilvægt að íslensk stjórnvöld hefðu um þetta að segja, hefðu yfirráð yfir þeim rekstraraðilum sem hér starfa. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þetta stangist á við þær reglur sem á að innleiða. Ég held að hér sé pressan vegna ótta við málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum, að ýta mögulega á of hröð og óvönduð vinnubrögð. Ég vænti þess að þingnefndin kalli til ráðgjafar sérfræðinga í EFTA-rétti og fái þetta á hreint. Því að það skiptir máli, ekki bara að innleiða tímanlega heldur að innleiða vel.

Ráðherra kom í framsögu sinni inn á það að hluti þessara ákvæða væri eitthvað sem myndi kannski lítið reyna á enda væri hér lítið um erlenda rekstraraðila að störfum í flutningum. Ég hvet þá hæstv. ráðherra til að nýta einhvern hluta sumarfrísins til að heimsækja vinsæla ferðamannastaði, vegna þess að það er að mínu viti ekki alveg rétt. Fjöldinn allur af rútum sem keyra um götur Íslands á sumarmánuðunum eru gerðar út frá meginlandi Evrópu og nýta sér þar hagræðið sem felst í að geta mögulega greitt erlendum bílstjórum lægri laun en íslenskir myndu láta bjóða sér. Umfang þessara erlendu aðila er, held ég, meira en ráðherra vildi vera láta í flutningsræðu sinni.

Hvað varðar hitt atriðið sem ég hnaut um við lestur frumvarpsins, það að staðbundin yfirvöld bjóði að jafnaði út rekstur reglubundinna farþegaflutninga, þá hefur hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé komið ágætlega inn á það að hér eru áhyggjurnar þær að verið sé að færa á markaðsforsendur einhverja þjónustu sem eðlilegra og í raun skilvirkara sé að reka á forsendum hins opinbera, að almenningssamgöngur í dreifðum byggðum og utan leiða 1 og 6 á höfuðborgarsvæðinu, sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi svo gleðilega áðan, þær leiðir sætu eftir hjá opinberum aðilum og vera reknar með tapi, en einkaaðilar sætu að þeim leiðum þar sem farþegafjöldi er nægilegur til að þær skili hagnaði.

Um málið hef ég að þessu sinni fátt að segja annað en kannski að fagna því sérstaklega í lokin að ráðherra sé með frumvarpinu m.a. að leggja til innleiðingu á Evrópureglugerð um almenna farþegaflutninga á járnbrautum, sem boðar vonandi fagra framtíð með fjölbreyttari samgöngumátum en verið hafa hér á landi.