146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið og lýsi mig reiðubúinn til hverra þeirra verka sem gera lagasafnið betra og losa okkur við ólög og dauðan bókstaf og tek sérstaklega undir það sem hún segir um hörundsárindi stjórnmálamanna og opinberra persóna almennt og oft. Það er svolítið einkenni á því þegar málefnaleg umræða verður dálítið hvöss, sem vill gjarnan verða þegar fólk er að taka stórar og umdeildar ákvarðanir, það er bara hluti af umræðunni, þá er hinn hörundsári stjórnmálamaður mjög fljótur að hrökkva aftur í þann gír að afskrifa umræðuna sem persónulega og óþægilega og eitthvað sem ekki sé svaravert frekar en takast á við það hlutverk sitt að vera í stjórnmálum, sem m.a. er að takast á við erfiða umræðu vegna umdeildra verka, því að við erum í þessu starfi til að koma breytingum til leiða. Um slíkar breytingar verður ekki alltaf algjör sátt.

Ég þakka þingmanninum fyrir að hafa bent á það í ræðu sinni áðan að fyrir ekki svo mörgum árum hafi verið bannað að móðga embættismenn hér á landi. Það þykir mér álíka bjánaleg hugmynd og ef það væri til að mynda bannað að móðga stjórnmálamenn. Þá þurfum við náttúrlega að hafa til að bera þá auðmýkt í opinberri umræðu, við sem erum opinberar persónur og stjórnmálamenn og fulltrúar þjóðarinnar á þingi, að geta nálgast erfiðu umræðuna með opnum hug og tala bara frá hjartanu. Þetta starf snýst nú um heiðarleika. Ef við störfum samkvæmt því eigum við alveg að þola smágagnrýni.