146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum hennar framsögu og lýsi ánægju með þetta frumvarp. Ég tel það vera eitt mikilvægasta hlutverk þingsins að búa fólki í þessari stöðu, verðandi og nýbökuðum foreldrum, sem áhyggjulausasta tilveru. Af nógu er að taka þegar nýtt líf kemur í heiminn sem flækir lífið þó að ekki bætist við stress vegna búsetu.

Ég rak augun í einn málslið sem mig langar að spyrja þingmanninn aðeins út í, þ.e. 1. gr., síðasti málsliður þar, með leyfi forseta:

„Réttur foreldra til fæðingarorlofs skal framlengjast sem nemur þeim tíma sem þeir dveljast utan heimilis fram til fæðingar af þeim sökum sem greinir í 1. mgr.“

Ég spyr vegna þess að þetta er mjög skýrt orðað, en lög um fæðingarorlof eru það ekkert alltaf. Foreldrar geta fengið að hefja töku fæðingarorlofs fyrr í gildandi lögum ef læknisvottorð sýnir að heilsa móður kallar á. Ef öryggi á vinnustað verðandi móður kallar á að hún sé frá vinnu þá getur viðkomandi hafið töku fæðingarorlofs einum jafnvel tveimur mánuðum fyrr en ella.

Það hvort rétturinn framlengist finnst mér ekki koma jafn skýrt fram í lögunum. Ég man ekki alveg hvort það sé síðan tekið almennilega fram í reglugerðinni, ég vænti þess og vona það alla vega. Þingmaðurinn kannski þekkir það betur. En mig langaði bara að þakka þingmanninum fyrir að taka þetta svona skýrt fram hér í frumvarpinu og spyr hvort ekki væri gott að nefndin athugaði hin tilvikin í leiðinni, hvort álíka (Forseti hringir.) skýrleiki væri æskilegur í öðrum sambærilegum tilvikum.