146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:13]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir þessa ræðu og fyrir að leggja fram þetta mikilvæga mál, sem ég tel að hv. þingmenn Framsóknarflokksins styðji heils hugar.

Það eru mjög góð markmið sem sett eru fram í þessari tillögu. Það sýnir sig í greinargerð með tillögunni að greinilega er þörf fyrir þessa þjónustu því að hér er vitnað í tilraunaverkefni skólaárið 2012–2013 í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Á milli ára, ef ég les rétt, er fjölgun upp á tæplega 31% í aðsókn til sálfræðings á milli áranna.

Í greinargerðinni segir jafnframt að verið sé að tala um — er það ekki? — að það verði einn sálfræðingur á hverja 700 nemendur. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer ekki með rétt mál. En hefur verið gerð greining á hversu margir sálfræðingar þyrftu að fara inn í framhaldsskóla landsins? Hefur verið gerð greining á framboði sálfræðinga í landinu? Eins og við vitum er í ýmsum fagstéttum orðinn skortur á fagfólki. Er nægilegt framboð af sálfræðingum? Við höfum séð að sveitarfélög hafa ítrekað þurft að auglýsa eftir sálfræðingum til starfa. Eða er þetta kannski einn af þeim hlutum sem farið verður í í hv. velferðarnefnd, býst ég við, og skoðað?

Mig langaði örlítið að forvitnast í þessu afar góða máli, hvort þessir tveir þættir hefðu verið kannaðir.