146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki eitt heldur eiginlega allt við þetta mál sem er með endemum.

Í fyrsta lagi aðgerðin sjálf sem sannanlega færir opinbera fjármuni, milljarða og milljarðatugum saman, úr ríkissjóði til tekjuhæstu og efnamestu einstaklinga í samfélaginu. Það eru þær staðreyndir sem þola hér ekki dagsins ljós, samanber að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra nöldra undan því að það eigi ekki að spyrja svona. Þessar staðreyndir mega bara ekki koma fram. Það er svo ranglátt að spyrja svona um þessa góðu aðgerð. En hún er sannarlega þannig að milljarðar og milljarðatugir fóru til tekjuhæstu laganna í samfélaginu. Hundruð fjölskyldna sem borguðu auðlegðarskatt árin á undan fengu niðurfærslu skulda sinna. Af hverju borgaði fólkið auðlegðarskatt? Það var af því að það átti 80 eða 100 milljónir í hreina skuldlausa eign, nettóeign. Þannig er það nú. Og hæstv. fjármálaráðherra er orðinn svo gersamlega rökþrota að hann líkir þessu saman við vaxtabætur eða sérstakar vaxtabætur, sem eru auðvitað tekju- og eignatengdar, eða 110%-leiðina þar sem að uppistöðu til bankar og lífeyrissjóðir afskrifuðu skuldir af yfirveðsettum og eignalausum heimilum vegna þess að sú aðgerð var bæði með tekju- og eignamörk og gengið hart að því að menn teldu fram allar eignir sínar áður en kom til niðurfærslunnar. Þetta eru ósambærilegir hlutir. Ráðstöfun opinberra fjármuna, skattfjár úr ríkissjóði, verður að standast kröfur af þessu tagi um jafnræði og sanngirni. Það gerði þessi aðgerð ekki. Eins og það er dregið hér fram: Hún er félagslega píramídi á hvolfi.

Í öðru lagi er skýrslan sjálf hneyksli og tuðið um það hvað það sé ósanngjarnt að skýrslubeiðendur spyrji eins og þeir spyrja, það kemur framkvæmdarvaldinu ekkert við hvernig Alþingi orðar sínar spurningar. Bara bókstaflega ekki neitt. (Forseti hringir.) Og það er góð ábending sem kom hér áðan: Hvað með tugprósenta hækkun fasteignaverðs sem nú er orðin á síðustu misserum hjá fólkinu sem fékk fjármuni úr ríkissjóði? (Gripið fram í: Skattleggja það?) Verður það krafið um endurgreiðslu eða fá kannski hinir þá fjármuni? (Forsrh.: Við hljótum að skattleggja það.) (Forseti hringir.) Hvar er misgengið í dag sem þarna var verið að leiðrétta?