146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim kollegum mínum sem þykir illa gert af samstarfsflokkum forsætisráðherra að láta hann standa hér einan fyrir máli sínu í sérstakri umræðu í gær. En mér þóttu aðrir dagskrárliðir sérstakir í gær. Óundirbúinn fyrirspurnatími var á dagskrá fundarins. Þar var meðal annars rædd brottvísun bresks ríkisborgara úr flugvél Icelandair á leið til Bandaríkjanna. Þar hraut af vörum hæstv. ráðherra: „Hefði ég vitað af þessari fyrirspurn hefði ég mögulega verið búin að grafast fyrir um það.“

Nú er ég nýr hér í starfi og kannski ekki alveg búinn að ná tökum á því, en ég hélt að eðli óundirbúinna fyrirspurna væri einmitt að þær væru óundirbúnar. Gæti forseti leiðbeint mér um hvort hugmyndin sé sú að við eigum að undirbúa hæstv. ráðherra fyrir fyrirspurnirnar?