146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Mörg sjónarmið og rök eru fyrir sérstökum stuðningi við landbúnað hér á landi sem og í öðrum löndum. Matvælaöryggi, lægra verð á vöru og byggðasjónarmið eru þau algengustu. Samfylkingin hefur lagt á það áherslu að landbúnaðarkerfinu verði breytt og að tekið verði upp árangursríkara fyrirkomulag sem styrkir byggðir, eykur frelsi bænda, gerir nýliðun auðveldari, stuðlar að nýsköpun og hagkvæmari framleiðslu og bættum hag neytenda. Krafa um skynsamlega landnýtingu, dýravelferð, sjálfbærni og umhverfisvernd ætti að vera skilyrði fyrir opinberum stuðningi.

Í landbúnaðarkerfinu hér á landi stendur deilan oft um það að hagur neytenda sé fyrir borð borinn, m.a. með búvörusamningunum síðustu. Endurskoðun þeirra verður að bæta bæði hag bænda og neytenda. Annað er óásættanlegt.

Það er eðlilegt að spurt sé hvað neytendur fái fyrir þá miklu fjármuni sem settir eru í búvörusamninga og hvers vegna engin skref séu stigin sem leyfa samkeppni eða til að mynda það eftirsótta aðhald sem samkeppni getur veitt. Vegna búvörusamninganna verða greiddir beint úr ríkissjóði um 14 milljarðar kr. á hverju ári næstu 10 árin ef ekki verða gerðar breytingar. Þegar slík upphæð rennur úr sameiginlegum sjóðum okkar þurfa rökin fyrir því að vera skotheld og almannahagur augljós.

Stærsta sameiginlega markmið mannkyns er að stöðva hlýnun jarðar. Landbúnaðurinn á Íslandi á að leika eitt af lykilhlutverkum hér á landi með góðri innlendri matvælaframleiðslu með því að rækta upp land og endurheimta votlendi.

Ég vil í lokin spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé unnið að því að takmarka rétt bænda til að framræsa land. Nú er það svo að engin takmörk eru fyrir því þó að ljóst sé að votlendi skiptir miklu máli þegar við vinnum að því að leggja okkar af mörkum til Parísarsamkomulagsins.