146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Væntingar byggjast gjarnan á því sem stendur í lögum. Ef lagaákvæðið segir að ekki eigi að skerða ellilífeyrinn þinn út af einhverju ákveðnu þá geturðu myndað þér lögmætar væntingar til þess. Mannleg mistök geta mögulega verið málefnaleg sjónarmið í átt að því að hægt sé að færa fyrir því rök að setja megi afturvirk lög.

Vissulega er hægt að setja afturvirk lög, sérstaklega ef þau hafa jákvæðar ívilnandi afleiðingar í för með sér fyrir þá sem þau taka til. Ef þau hafa hins vegar neikvæðar afleiðingar eða taka af fólki ívilnandi réttindi þá ber að stíga mjög varlega til jarðar því að það gæti varðað bótaskyldu ríkisins.

Það er mjög mikilvægt að framsögumaður málsins sé með bótaskyldu ríkisins í þessu máli á hreinu og sé með það á hreinu hvort það standist yfir höfuð stjórnarskrá og stjórnskipun ríkisins að hafa þessa lagasetningu afturvirka. Það er mjög mikilvægt fyrir réttaröryggi borgaranna í landinu. Það skiptir engu hver gerði þessi mistök eða hversu margir stóðu að því. Þetta er lagaprinsipp sem verður að virða. Bann við afturvirkni laga er grundvallarhugmynd í okkar réttarríki.