146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:26]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir andsvar hennar.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, málið kemur mjög seint inn á Alþingi eftir gríðarlega mikinn undirbúning undanfarin ár. Það má heldur ekki gleyma því að þetta mál fór í opið umsagnarferli áður en það kom til Alþingis, á vef velferðarráðuneytisins, þar sem hagsmunaaðilum og öllum var frjálst að senda inn umsagnir um málið. Ég viðurkenni það vel að ákveðin pressa átti sér stað til að klára málið og get tekið undir það. En það var engin umsögn, ekki frá neinum einasta umsagnaraðila sem sneri að þessu lagaákvæði. Þrátt fyrir mikla tímapressu, ef einhverja, í hv. velferðarnefnd síðasta haust var farið mjög vel og gaumgæfilega yfir allar umsagnir sem bárust um málið og unnið var í samræmi við það að bregðast við þeim eða taka afstöðu til þeirra.

Ég er þess viss að ef umsögn hefði komið frá einhverjum aðila eða fjölda aðila sem hefðu eitthvað um málið að segja og sent inn umsögn, ef eitthvað hefði komið varðandi þessa grein þá hefði verið brugðist við því. En þetta kom aldrei til umræðu í hv. velferðarnefnd síðasta haust.