146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:29]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fjölmiðlaflóran er blómleg á Íslandi. Hún er blómlegri en við þekktum fyrir 20 árum og fleiri möguleikar eru fyrir okkur til að tengjast hvert öðru, en engu að síður hafa fjölmiðlar í dreifbýli mikilvægu hlutverki að gegna, bæði staðbundnu og á landsvísu. Þeir eru gjarnan eins konar gátt inn í samfélag sem annars er mörgum fleiri hulin. Þrátt fyrir umrót og nýja tækni gegna þeir enn mikilvægum verkefnum sem frétta- og menningarmiðlar og eru kynningarvettvangur á sínu svæði. Þeir draga fram sérstöðu í byggðunum og halda á stundum uppi vörnum fyrir mikilvæg, svæðisbundin hagsmunamál. Þessir fjölmiðlar eiga hins vegar á brattann að sækja í umróti tímanna. Æ fleiri miðlar eru nú í beinu eða óbeinu eignarhaldi fjármálaafla, fjárfesta eða stórra fyrirtækja á sínu svæði eða á landsvísu. Héraðsfréttablöðin, sem flest ef ekki öll halda líka úti vefútgáfum, eru ekki öll áskriftarblöð. Með því eru þau eðli málsins samkvæmt háð dreifingaraðila, sem er yfirleitt Íslandspóstur. Þetta er einn af hinum veigamiklu útgjaldaþáttum, eins og fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna.

Einkareknir, hlutlausir og gagnlegir fjölmiðlar á landsbyggðinni eru í hreinni útrýmingarhættu að mati útgefenda og hættan er sú að þeim muni snarfækka á næstu misserum og mánuðum verði þeim ekki hjálpað til lífs með einum eða öðrum hætti. Þetta er að mínu mati varhugaverð þróun og ljóður á ráði þeirra sem unna hinu frjálsa orði. Þarna er um hagsmuni og sérstöðu landsbyggðar og íbúanna þar að ræða. Um leið er það hagur allra landsmanna að þessir miðlar hverfi ekki af markaði heldur fái að dafna í sínu hlutverki og á sínum forsendum. Til þess þarf að líta til ívilnunar og skilnings á sérstöðu þeirra og mikilvægi.

Það eru nokkur atriði sem upp úr standa eftir samtöl við útgefendur í mínu kjördæmi. Að áliti útgefenda ætti ríkið að styrkja þá fjölmiðla sem stunda þau verkefni sín af fullri alvöru, þ.e. með útgáfu með skýr og gegnsæ viðmið, með starfsmenn sem vinna að fréttaöflun og gefa miðil sinn út og hafa hann virkan á ársgrundvelli. Nefnt hefur verið hvernig Norðmenn haga sínum málum og fleira mætti nefna. Í starfi nefndarinnar verður spennandi að sjá hvernig því verkefni vindur fram, hvort litið verður á þetta sem mikilvægt byggðamál og tryggt að eignarhald slíkra fjölmiðla verði á heimaslóðum eða alla vega girt fyrir samþjöppun.

Fjallað hefur verið um, eins og ég gat um áðan, gjaldskrá Íslandspósts og hvernig áskriftarblöð verða undir í samkeppninni við fjölpóstinn. Útgefendur líta á þetta sem hreina aðför að sínu erfiða útgáfustarfi. Gjaldskráin fyrir fjölpóstinn er svo lág að auglýsendur sjá jafnvel fremur hag sinn í að prenta auglýsingar og senda þannig inn á heimili, en auglýsingar eru þessum aðilum gríðarlega mikilvægar.

Fríblöð á Íslandi eru öll með tölu fremur veikburða og þau þurfa allar mögulegar leiðir til tekjustofna og velta auglýsingarnar miklu þar. Eins og fram kom í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur er ein hugmyndin sú að opinberir aðilar snúi sér til dreifbýlisfjölmiðlanna í ríkari mæli en þeir gera, en þetta er ekki einfalt því að auglýsingastarfsemi stórra fyrirtækja er komin til þjónustuaðila sem horfa á upplagstölur og telja að litlir dreifbýlisfjölmiðlar séu ekki samkeppnisfærir við stóru blöðin.

Ef stjórnvöld vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja áfram lýðræðisþróun og samfélagsumræðu í gegnum einkarekna landsbyggðarfjölmiðla eru til þess leiðir sem drepið hefur verið á, þ.e. að við beinum stuðningi í formi auglýsinga með einhverjum hætti til þeirra. Það er, eins og ég nefndi, allt of mikið um að opinberar stofnanir sem staðsettar eru í Reykjavík bindi sig við Reykjavíkurfjölmiðlana eða þéttbýlisfjölmiðlana og telji að það þjóni helst tilganginum að auglýsa á því svæði. En dagblöð berast nefnilega ekki alltaf út um landið, stundum seint og stundum ekki, og hafa á þeim svæðum ekki jafn mikla útbreiðslu og landsbyggðarfjölmiðlarnir.

Útgefendur á landsbyggðinni vilja orða þetta þannig að dagblöðin séu í dag eins og héraðsfréttablöð höfuðborgarsvæðisins og útbreiðsla þeirra á landsbyggðinni sé takmörkuð að þeirra mati.

Á það hefur verið bent og um það fjallað í ræðu og riti, m.a. á hina háa Alþingi, að auka þurfi gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum og koma í veg fyrir samþjöppun, eins og átt hefur sér stað á undanförnum árum. Á bak við fyrirtæki eru jafnvel ósýnileg peningaöfl sem sækja fram með ofurafli. Skilja má af samtölum við útgefendur á landsbyggðinni að fjölmiðlanefnd, Samkeppniseftirlitið og hugsanlega fleiri eftirlitsstofnanir hafi einskis mátt sín í skilgreindu hlutverki sínu og að leita þurfi allt til Rússlands til að finna jafn litla virðingu borna fyrir nauðsyn þess að verja hlutleysi og heilbrigði fjölmiðla.

Virðulegur forseti. Stoðir dreifbýlisfjölmiðla eru veikar. Einkareknir, hlutlausir og gagnlegir fjölmiðlar á landsbyggðinni eru í hreinni útrýmingarhættu og mun snarfækka á næstu misserum og mánuðum verði þeim ekki hjálpað til þess að bjarga sér áfram. Það er að mínu áliti hagur íbúa á landsbyggðinni og þar með hagur allra landsmanna að þeir hverfi ekki af markaði. Ef stjórnvöld vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja áfram lýðræðisþróun og gott samtal á landsbyggðinni styð ég eindregið að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skipi þennan umrædda starfshóp sem vinni hratt og markvisst að því að tryggja áfram blómlega og metnaðarfulla fjölmiðlun úr öllum kimum samfélagsins.