146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

aðgerðir gegn skattundanskotum og aflandsfélögum.

[10:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við hæstv. ráðherra erum algjörlega sammála um það að mikilvægt er að berjast gegn aflandsfélögum og skattundanskotum. Ég spurði hæstv. ráðherra út í orð hans því að við gerum auðvitað ráð fyrir því að orðum fylgi ábyrgð, ekki síst þegar um æðstu embættismenn ríkisins er að ræða. Hæstv. ráðherra sagði það skýrt í þættinum að hann teldi að vantað hefði pólitískan baráttumann í fjármálaráðuneytið til þess að berjast gegn aflandsfélögum og skattundanskotum. Ég hlýt því að endurtaka spurningu mína: Telur hæstv. ráðherra að ekki hafi verið haldið nægjanlega vel á þessum málum á síðasta kjörtímabili? Til hvers er hann að vísa? Til hvaða ráðherra er hann að vísa þegar hann segir að það hafi ekki verið pólitískur baráttumaður í fjármálaráðuneytinu til þess að berjast gegn aflandsfélögum og skattundanskotum? Við hljótum að gera þá kröfu í ljósi þess að tíminn var búinn í viðtalinu þegar þessi orð féllu að hæstv. ráðherra útskýri hvað felst í þeim orðum.