146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir þessa umræðu um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og mjög skýrt innlegg hæstv. ráðherra Jóns Gunnarssonar. Þetta er auðvitað mjög stór umræða. Ég vil kannski taka fyrir í fyrri ræðu minni það sem snýr að þróun undanfarin ár og kannski áratugi. Sú hugsun sem endurspeglast í þessari umræðu er breytt hugsun sem við höfum kannski átt erfitt með að ná utan um og þess vegna fagna ég þessari umræðu mjög.

Ég greip í skýrslu frá 2010 um sjálfbæra þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem kemur m.a. fram að sá forgangur í skipulagi sem bíllinn hefur haft og áhersla á bílaumferð hefur haft neikvæð áhrif á efnahag, á lífsgæði og á fleiri þannig þætti. Við höfum átt erfitt með að komast út úr þeirri hugsun. Mér finnst þessi umræða draga fram breytta hugsun, mögulega inn á þennan áratug frá því að þessi skýrsla er skrifuð. Þarna eru hugtök sem manni hefðu þótt framandi fyrir 20 árum, svo sem umhverfissálarfræði. Við erum í auknum mæli að átta okkur á ábyrgð gagnvart loftslagsmálum og vistkerfinu í heild sinni og áhrif umferðar á þessa þætti, en við viljum auðvitað á sama tíma geta ferðast hratt og auðveldlega á milli staða, úr og í vinnu og sinnt okkar daglegu erindum, þannig að það er kannski bara sá næsti sem á að huga að þessu. Bæði málshefjandi og hæstv. ráðherra komu mjög vel inn á þessi tvö stjórnsýslustig, greiðar, öruggar og umhverfisvænar samgöngur á hendi ríkis, svo samspilið (Forseti hringir.) við skipulag sveitarfélaga. Ég held bara áfram í seinni ræðu, hæstv. forseti.