146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég skal vera alveg sammála því að þetta eru bestu aðferðirnar til að hafa stjórn á þessum málum. Hins vegar langar mig til að móðgast aðeins fyrir hönd vísindamanna hérna í pontu Alþingis þar sem hv. þingmaður segist ekki vita ýmislegt um aðferðafræðina og dregur á sama tíma í efa vísindaleg vinnubrögð, í rauninni er vegið að fagmennsku vísindamanna þar sem hann sjálfur, hv. þingmaður, er ekki. Ég hef hins vegar unnið og lagt stund á nám í slíkum störfum og veit aðeins um hvað er að ræða þar. Mjög margar greinar og rit fjalla í þá áttina sem verið er að vekja athygli á hérna, að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu. Enginn vafi er um það að aukin neysla leiðir til lýðheilsuvandamála. Enginn vafi er um það og því þurfum við að setja okkur ákveðin viðmið hvar við ætlum að vera. (Forseti hringir.) Hvernig getum við séð hvort þessi breyting tekst eða mistekst? Við þurfum (Forseti hringir.) að hafa það viðmið fyrir stjórnvöld, sem aðhaldstæki fyrir stjórnvöld, (Forseti hringir.) til að þau viti hvort þau þurfi að fara (Forseti hringir.) til baka eða ekki.