146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:05]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki ætlun þess sem hér stendur að móðga einn eða neinn eða vega að starfsheiðri ágætra vísindamanna. Það má alveg upplýsa það hér að ég er ágætur fylgismaður kenninga Karls Poppers um hvað telst vera vísindalega sönnuð kenning og hvenær vísindaleg kenning er afsönnuð o.s.frv. Það sem ég er eingöngu að draga fram í þessu máli er að ekki eru allar þessar niðurstöður, samantektir, fullkomnar. Það er varhugavert að draga of víðtækar ályktanir og heimfæra þær yfir á íslenskar aðstæður, samanburðarrannsóknir eða slíkt sem gerist í öðrum löndum í kringum okkur sem eiga ekki nein tengsl við íslenskan veruleika. Þetta eru mín varnaðarorð. Það á við (Gripið fram í.) í þessu máli eins og öðru, að forðast ægivald vísindalegrar kennisetningar.