146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:39]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá erum við einnig ósammála um það hvað sé hræðsluáróður. En hv. þingmaður svaraði þó ekki spurningu minni um hvort hún teldi besta úrræðið vera stýringu ríkisins en ekki forvarnir, fræðsla og meðferðarúrræði.

Svo velti ég líka fyrir mér, því er mikið haldið fram hér að neysla áfengis muni aukast og er í því sambandi vísað til erlendra rannsókna. Það er samt ekki raunin hér á landi og ljóst er að aðgengi að áfengi hefur stóraukist á síðastliðnum áratug. Fjölmargar nýjar áfengisbúðir, enn fleiri vínveitingaleyfi hvert sem litið er, og síðan auðvitað Facebook-hópar sem hægt er að kaupa sér vín á, það er alltaf hægt að nálgast áfengi. Þrátt fyrir það neyta ungmenni minna áfengis en áður. Áfengismenning Íslands er mun heilbrigðari en hún var á árum áður. Hvernig kemur þetta eiginlega heim og saman við þær fullyrðingar að hér muni allt versna er viðkemur áfengisneyslu verði frumvarpið samþykkt? Verður það bara ekki eins og í löndunum í kringum okkur sem við berum okkur saman við sem þið þingmenn hafið ferðast til, vænti ég? Er þar allt á heljarþröm? (Gripið fram í.)

(Forseti (NicM): Ró í salnum.)