146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:11]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að bregðast við orðum hv. þingmanns þar sem hún var með vangaveltur um einhvers konar víglínur og einhvers konar pókerleik, að mögulega yrði heimild til auglýsinga á áfengi dregin til baka í meðförum þingsins og útgangspunkturinn að þar væri í frumvarpinu verið að ganga lengra en í núverandi kerfi.

Mig langar að bregðast við þessu, annars vegar til þess að taka fram að um engan póker er að ræða og hins vegar að segja að ég er ósammála hv. þingmanni um að þarna sé gengið lengra. Raunveruleikinn er sá að það eru áfengisauglýsingar í öllu nærumhverfi okkar, það er raunveruleikinn. Með frumvarpinu er þvert á móti stigið inn í þann raunveruleika til þess að stemma stigu við og stýra þeim veruleika, með því að hafa eftirlit með honum og með því t.d. að leggja til að hverri einustu áfengisauglýsingu fylgi aðvörun (Forseti hringir.) eða hvatning til betri neyslu, í staðinn fyrir að láta eins og áfengisauglýsingar séu ekki til þegar þær eru út um allt.