146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég fékk svona smávegis fiðring eins og ég væri að ræða við Pírata þegar orðið netverslun heyrðist hér [Hlátur í þingsal.] æ ofan í æ. Miðað við hvernig þingmaðurinn talar er hann aðeins bjartsýnni en ég á þróun póstþjónustu út um land sem hefur ekki verið jákvæð á síðustu árum. Ég myndi ekki telja að það auki endilega aðgengið að fólk geti fengið vöruna senda í gegnum póstinn.

Þingmaðurinn nefndi áðan að ríkið væri ekki gott í því að hafa eftirlit með sjálfu sér. Betra væri að hafa einkaaðila í rekstri og öflugt eftirlit með þeim. Hér erum við aftur komin að bjórlöggunum sem hv. fyrsti flutningsmaður Teitur Björn Einarsson nefndi áðan. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja þingmanninn sérstaklega um það atriði, hvort það hafi verið metið hversu mikið þyrfti að þenja út eftirlitsbáknið, sem stundum er svo kallað, til að bregðast við breyttu umhverfi í sölu á áfengi.